Þessi grein birtist fyrst í júlíhefti Mynda mánaðarins.
Woody karlinn Allen gefur ekkert eftir þrátt fyrir árin 77 og sendir í ágúst frá sér enn eina myndina. Að þessusinni segir hann okkur frá hinni veruleikapíndu Jasmine
sem fer af toppnum á botninn á einni nóttu.
Myndin heitir Blue Jasmine og eins og alltaf hefur Woody kallað til úrvalshóp leikara. Fara þar fremst í flokki þau Cate Blanchett, Alec Baldwin, Peter Sarsgaard, Sally Hawkins, Alden Ehrenreich, Bobby Cannavale, Andrew Dice Clay, Michael Stuhlbarg og hinn einstaklega skemmtilegi grínari Louis C.K., sem sagður er fara á kostum í myndinni.
Jasmine er af alþýðufólki komin og dreymdi alltaf um að lyfta sér upp úr meðalmennskunni, og hélt að sér hefði tekist það. Dag einn hrynur veröld hennar hins vegar til grunna svo hún neyðist til að leita ásjár systur sinnar sem hún hefur ekki
talað við í nokkur ár. Og spurningin er: Tekst Jasmine að ná jarðsambandi eða ætlar hún að reyna á ný að klifra upp í ótraustar skýjaborgirnar sem hún hafði skapað sér?
Woody á sér trygga aðdáendur sem bíða alltaf eftir nýjasta útspili hans og vonandi á Blue Jasmine eftir að gera það gott þótt sjálfur kæri hann sig kollóttan um hvort myndir
hans slái í gegn eða ekki. Hann vill bara segja sínar sögur og víst er að það gerir hann alltaf skammlaust.