Húsið eftirsótt

Þrír þekktir innlendir leikstjórar eru að íhuga að kvikmynda elleftu skáldsögu Stefáns Mána, Húsið, sem er nýkomin út.

Fréttablaðið segir frá þessu í dag.

Blaðið hefur heimildir fyrir því að þessir aðilar lesi nú bókina með kvikmyndaréttinn í huga.

Búið er að gera eina kvikmynd sem byggir á sögu eftir höfundinn, myndina Svartur á leik, en 62 þúsund manns sáu myndina í íslenskum kvikmyndahúsum og er hún orðin næsttekjuhæsta íslenska mynd sögunnar á eftir Mýrinni með um áttatíu milljónir í aðsóknartekjur.

Leikstjóri Svartur á leik var Óskar Axelsson og með aðalhlutverk fór Þorvaldur Davíð Kristjánsson.

Söguþráður Hússins er á þann veg að drengur kemst lífs af úr bruna í Kollafirði á Þorláksmessu árið 1979 en foreldrar hans og tvö systkini farast. Seint í nóvember er Hörður Grímsson kallaður að húsi í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Í kjallaranum liggur gamall maður í blóði sínu. Skömmu síðar flytur fjögurra manna fjölskylda inn í afskekkt hús í Kollafirði og draugar fortíðar vakna til lífsins.