Hungurleikar heimsfrumsýndir 11. nóvember

Heitir aðdáendur Hungurleikanna, sem geta ekki beðið eftir að næsta mynd, The Hunger Games Catching Fire, komi í bíó, ættu að fara á netið umsvifalaust og kaupa sér flugmiða til Lundúna, en þar verður myndin heimsfrumsýnd þann 11. nóvember, 11 dögum á undan almennri frumsýningu myndarinnar þann 22. nóvember.

Katniss Everdeen

Myndin hefst eftir að Katniss Everdeen kemur heim til sín eftir að hafa unnið 74. árlegu Hungurleikana ( Hunger Games ), ásamt félaga sínum Peeta Mellark. Sigur þýðir að þau verða núna að fara í sigurferð um landsvæðin ( districts ) og skilja vini sína og fjölskyldur eftir heima. Í ferðinni skynjar Katniss að uppreisn er í aðsigi, en The Capitol stendur samt traustum fótum og Snow forseti er að undirbúa 75. árlegu Hungurleikana ( The Quarter Quell ) – sem er keppni sem getur breytt landinu Panem til framtíðar.

Myndin er gerð eftir geysivinsælum skáldsögum Suzanne Collins. Leikarar eru Jennifer Lawrence sem Katniss, ásamt þeim Josh Hutcherson, Liam Hemsworth, Woody Harrelson, Elizabeth Banks, Lenny Kravitz, Philip Seymour Hoffman, Sam Claflin, Jena Malone, Jeffrey Wright, Stanley Tucci og Donald Sutherland.

Francis Lawrence leikstjóri I Am Legend leikstýrir.