Í fyrrahaust var greint frá því að bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Robert Eggers væri með hefndarsögu í bígerð sem nefnist The Northman. Um er þar að ræða víkingamynd sem gerð er eftir handriti sem Eggers skrifaði í samvinnu við rithöfundinn Sigurjón Birgi Sigurðsson, betur þekktan sem Sjón.
Saga myndarinnar gerist á Íslandi við upphaf 10. aldar en heimildir herma að hún verði tekin upp að stórum hluta í Kanada, en Eggers notaðist mikið við landið við tökur á fyrri verkum sínum, sem eru kvikmyndirnar The Witch og The Lighthouse. Báðar kvikmyndir leikstjórans hafa hlotið nær einróma lof gagnrýnenda og vakið athygli víða um heim.
Óvenjulega ofbeldisfull
Kvikmyndavefurinn Screen Daily átti spjall við kvikmyndatökumann myndarinnar, Jarin Blaschke, sem hlaut nýverið Óskarstilnefningu fyrir The Lighthouse. Blaschke fullyrðir að umfangið á The Northman sé umtalsvert stærra heldur en í síðustu myndum Eggers og mega áhorfendur búast við hrottalegri mynd, vægast sagt, sem einnig verður að miklum hluta tekin upp á Írlandi.
Blaschke segir:
„Þessi víkingamynd sem við gerum að gera núna í Evrópu verður myrk og óvenjulega ofbeldisfull. Ég held að Eggers stefni að eins konar þríleik,“ segir hann og gefur í skyn að verði mikil þematenging á milli þeirra þriggja kvikmynda sem leikstjórinn hefur komið að, enn sem komið er.
The Northman skartar ýmsum þekktum andlitum og má búast við þeim Nicole Kidman, Anya Taylor-Joy, Willem Dafoe ásamt bræðrunum Bill og Alexander Skarsgård. Myndin segir í grunninn frá norskum prinsi sem hyggst koma morðingja föður síns fyrir kattarnef. Myndin er framleidd af Lars Knudsen, dönskum framleiðanda, sem hefur látið gott af sér leiða með þekktum hryllingsmyndum á borð við Hereditary og Midsommar.
Ekki er komin dagsetning á víkingamyndina en gera má fastlega ráð fyrir því að hún verði frumsýnd á næsta ári.