Scarface leikstjórinn Brian De Palma segist vera með hrollvekju í smíðum, sem byggð verður á Harvey Weinstein hneykslismálinu.
Í samtali við franska dagblaðið Le Parisien sagði kvikmyndagerðarmaðurinn að hann ynni nú að handriti sem byggði á hneykslinu, og hann eigi í viðræðum við franskan framleiðanda um framleiðslu kvikmyndarinnar.
Hann segir að aðalpersóna myndarinnar muni ekki verða kölluð Harvey Weinstein, en myndin verði hrollvekja, þar sem kynferðishrotti gengur laus, og sagan muni gerast í kvikmyndaiðnaðinum.
Í öðru viðtali við AFP fréttaveituna, sagði De Palma, sem einnig hefur gert myndirnar Dressed to Kill, Carrie og Mission: Impossible, að hann hefði fylgst mjög náið með framvindu Weinstein málsins.
„Ég þekki mjög marga sem tengjast því,“ sagði hann. „Ég hef heyrt sögur í gegnum árin.“
Kvikmyndamógúllinn Weinstein var ákærður fyrr í vikunni fyrir nauðgun, og kynferðisofbeldi. Hann var handtekinn 25. maí í New York.
Þó að Weinstein hafi verið ásakaður um kynferðisbrot af meira en 80 konum, þá eru kærurnar byggðar á ásökunum tveggja kvenna.