Hr. Stóri sendur í megrun

Chris Noth, öðru nafni Mr. Big, eða Hr. Stóri, heillaði margar konurnar upp úr skónum í hlutverki sínu í sjónvarpsþáttunum Sex and the City, en þar lék hann viðskiptajöfur og hjartaknúsara sem átti í brokkgengu sambandi við Carrie, aðalpersónu þáttanna sem leikin var af Sarah Jessica Parker.

mr. big

Noth virðist eitthvað hafa misskilið þetta viðurnefni persónunnar þegar hann mætti til að leika í kvikmyndinni sem gerð var eftir þáttunum, en í viðtali við The Huffington Post á dögunum sagði Noth að hann hefði verið sendur beint í megrun þegar hann mætti til vinnu.

Noth var mættur til The Huffington Post til að ræða starf sitt fyrir World Food Day, en hann og þáttastjórnandinn Marc Lamont Hill fóru í framhaldinu að ræða um ástríðu sína fyrir mat og matargerð, og í því samhengi sagði Noth að það hefði einmitt komið sér í koll þegar kom að tökum Sex and the City.

„Þegar við vorum að gera bíómyndina Sex and the City, kom leikstjórinn Michael Patrick King, til mín og sagði; sjáðu til félagi, við köllum þig ekki Hr. Stóran af því að þú ert með svo stóra vömb, þannig að losaðu þig við hana áður en við byrjum að taka myndina,“ sagði Noth.