Jeff Nathanson, handritshöfundur kvikmyndarinnar Catch Me If You Can, hefur verið ráðinn til að skrifa handrit að fimmtu Pirates of the Caribbean myndinni.
Samkvæmt frétt Variety kvikmyndablaðsins þá ætlar stórframleiðandinn Jerry Bruckheimer að framleiða myndina fyrir Disney og Johnny Depp mun að öllum líkindum snúa aftur í hlutverki skipstjórans og sjóræningjans Jack Sparrow.
Enginn veit enn um hvað myndin á að fjalla, né heldur er vitað á þessari stundu hvort að leikarar úr fyrri myndum, eins og Geoffrey Rush eða Keira Knightley, snúi aftur.
Pirates of the Caribbean serían hefur þénað samtals meira en 3,5 milljarða Bandaríkjadala, en fjórða myndin, Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides, sem var frumsýnd árið 2011, þénaði meira en einn milljarð dala á heimsvísu.
Í frétt Variety segir að þó að Depp sé ekki enn búinn að skrifa undir samning um að leika Sparrow skipstjóra í fimmta sinn, þá hefur leikarinn sagt oftar en einu sinni að hann myndi snúi aftur svo lengi sem handritið yrði gott.