Mynd Thor: Ragnarok leikstjórans Taika Waititi, Jojo Rabbit, vann í dag til hinna eftirsóttu People’s Choice verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada sem lauk í dag.
Verðlaunin þýða að myndin er nú líklegri til frekari afreka á komandi verðlaunahátíðum, en hátíðartímabilið nær hámarki með veitingu Óskarsverðlaunanna í lok febrúar á næsta ári.
Sigurinn í Toronto eru góðar fréttir fyrir framleiðslufyrirtækið Fox Searchlight, sem hlýtur að hafa verið vonsvikið með frekar dræmar viðtökur gagnrýnenda við kvikmyndinni, sem er svört kómedía, sem gerist á síðustu dögum veldis Nasista, undir lok Seinni heimsstyrjaldarinnar.
Sögulega séð hefur sigur í Toronto skilað mörgum myndum verðlaunum á Óskarnum. Til dæmis vann Green Book verðlaunin í Toronto í fyrra og endaði með að fá Óskarsverðlaunin fyrr á þessu ári. Það sama má segja um La La Land, Room, Three Billboards Outside Ebbing, Missouri og The Imitation Game.
Myndin í öðru sæti í People´s Choice Awards flokknum var Marriage Story eftir Noah Baumbach og í þriðja sæti lenti Parasite, eftir Bong Joon-ho, en þær báðar hlutu góða dóma gagnrýnenda.
Verðlaunaspámenn telja að Marriage Story gæti fengið tilnefningu til Óskarsverðlauna, og Baumbach fengið tilnefningu fyrir leikstjórn og handrit, auk þess sem leikararnir Adam Driver, Scarlett Johansson og Laura Dern eru talin líkleg. Þá er talið mjög líklegt að Parasite muni keppa til úrslita sem besta erlenda myndin á Óskarnum, og gæti einnig komið til greina í flokknum besta mynd og besti leikstjóri.
Dýrkar Hitler
Með helstu hlutverk í Jojo Rabbit fara Scarlett Johansson, Sam Rockwell, Rebel Wilson og Waititi sjálfur, en hann leikur fíflalega útgáfu af ímynduðum Adolf Hitler. Myndin segir frá 10 ára strák sem dýrkar og dáir nasistaleiðtogann, en hann verður fyrir óvæntri áskorun í þessari dýrkun sinni, þegar hann kemst að því að móðir hans felur ungan gyðing heima hjá þeim.