Hirsch verður John Belushi

Emile Hirsch, leikarinn sem lék annað aðalhlutverkið í endurgerð íslensku myndarinnar Á annan veg, hefur verið ráðinn til að leika hlutverk gamanleikarans John Belsuhi, í ævisögulegri mynd sem Steve Conrad ætlar að gera um Belushi.

emile-hirsch-john-belushi-biopic

Á meðal framleiðenda myndarinnar er Judy Belushi Pisano, en hún var kærasta Belushi í menntaskóla og þau höfðu verið gift í sex ár þegar hann lést langt fyrir aldur fram árið 1982.

Tökur hefjast í New York næsta vor. Hirch verður 29 ára þegar tökur hefjast.

Conrad skrifar sjálfur handritið, en hann vinnur það upp úr ævisögu leikarnas „Belushi“ sem Belushi Pisano og Tanner Colby skrifuðu.

Á meðal framleiðenda er einnig félagi Belushi úr Saturday Night Live gamanaþáttunum, og góður vinur, Dan Aykroyd.

Myndin mun fjalla um Belushi á hátindi ferils hans, þegar hann lék í The Blues Brothers í hlutverki Jake Blues, og Animal House, í hlutverki John Blutarsky. Auk þess verður fjallað um leik hans þegar hann var aðalstjarnan í fyrstu fjórum seríum Saturday Night Live.

Fyrsta Saturday Night Live serían fór í loftið árið 1975, en þar kom Belushi fyrst fram sem Jake Blues, og persónan Samurai Warrior, ásamt því sem hann hermdi eftirminnilega eftir leikurunum Wiliam Shatner, Joe Cocker, Marlon Brando og Elizabeth Taylor.

Myndin mun einnig fjalla um ótímabæran dauða leikarans þegar hann var 33 ára, en hann tók of stóra skammt af kókaíni og heróíni á Chateau Marmont hótelinu í Los Angeles.

Hirsch sést næst í sjónvarpi í stuttseríunni Bonnie and Clyde og í bíómyndinni Lone Survivor þar sem hann leikur á móti Mark Wahlberg.

Á meðal helstu mynda hans má nefna Into the Wild, Killer Joe, Milk og Prince Avalanche ( Á annan veg  endurgerðin ) en fyrir hana hlaut leikstjórinn David Gordon Green verðlaun fyrir bestu leikstjórn á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á þessu ári.

Conrad skrifaði handritið að mynd Ben Stiller The Secret Life of Walter Mitty sem tekin var að hluta hér á landi.