Hið illa selur miða

Endurgerð af hrollvekjunni Evil Dead og þrívíddarútgáfa af risaeðlustórmyndinni Jurassic Park voru tvær aðsóknarmestu myndirnar í bíóhúsum í Bandaríkjunum í gær föstudag, þegar þær voru frumsýndar.

Upprunalega Evil Dead myndin var gerð á níunda áratug síðustu aldar, og leikstýrt af Sam Raimi, en upprunalega Jurassic Park ( í 2D ) var frumsýnd fyrir um tuttugu árum síðan. Leikstjóri hennar var Steven Spielberg. Þetta afturhvarf í tíma virðist síður en svo hafa latt Bandaríkjamenn til að borga sig inn á myndirnar.

Samkvæmt fyrstu tölum þá þénaði Evil Dead 11,5 milljónir Bandaríkjadala í gær föstudag, og talið er að lokatölur fyrir helgina verði um 27 milljónir dala, sem yrði þá mesta aðsókn helgarinnar á eina bíómynd.

Í humátt á eftir koma risaeðlurnar í Jurassic Park í þrívídd, sem nú þegar er ein stærsta mynd bíósögunnar. Upprunalega myndin þénaði 47 milljónir dala á frumsýningarhelgi sinni þegar hún var frumsýnd árið 1993, en þrívíddarútgáfan þénaði 7 milljónir dala í gær og útlit er fyrir tekjur upp á 18 milljónir fyrir alla helgina.

Samkvæmt þessum fyrstu tölum þá er útlit fyrir að toppmynd síðustu helgar, G.I. Joe: Retaliation, verði  í þriðja sæti yfir helgina og teiknimyndin The Croods komi þar á eftir í fjórða sætinu.