Hilmir leikur Friðrik

Eftir gjaldþrot Íslensku kvikmyndasamsteypunnar hefur Friðrik Þór einna helst sést leika í myndinni Direktøren For Det Hele. Núna virðist hann þó hafa rétt úr sér bakið og er loksins aftur kominn í leikstjórasætið, og þar viljum við einmitt hafa hann. Næsta leikna kvikmynd Friðriks Þórs heitir Mamma Gógó og mun byggja á hans eigin lífsreinslu á þeim tíma þegar hann var að gera Börn náttúrunnar og Bíódagar. Eins og titillinn gefur til kinna er ein aðalpersóna myndarinar Guðrún, móðir Friðriks og hefur Kristbjörg Kjeld nú þegar verið fengin til að leika hana. Hin aðalpersónan er auðvitað Friðrik og hefur hann fengið engan annan en sjálfan Hilmi Snæ Guðnason. Það skal þó tekið fram að alveg er óvíst hvort persónurnar munu heita Guðrún og Friðrik, það finnst mér eiginlega soldið ólíklegt. Tökur á myndinni munu hugsanlega hefjast í sumar.

Fyrst þarf Friðrik þó að frumsýna sýna næstu heimildarmynd sem ber heitið Sólskinsdrengurinn og fjallar um einhverfu. Hann hefur unnið lengi að henni og er að eigin sögn orðinn alveg heillaður að viðfangsefninu og því gerðar miklar væntingar til myndarinnar.

Þetta ferli minnir mig einna helst á fyrstu skref Friðriks, en eins og við munum öll eftir þá byrjaði hann einmitt á heimildarmyndunum (Rokk í Reykjavík) og gerði svo myndir byggðar á hans eigin lífi (Bíódagar). Hvort þetta er meðvituð aðferð hjá honum eða hrein tilviljun er erfitt að segja.

Frétt fengin úr Morgunblaðinu 3. febrúar 2008