Hendir símanum í frystikistuna

Kvikmyndafyrirtækið Saban Films hefur samkvæmt Variety kvikmyndaritinu, keypt dreifingarréttinn í Bandaríkjunum að hroll-vísindatryllinum Cell, með þeim John Cusack, Samuel L. Jackson og Isabelle Fuhrman í aðalhlutverkum.

john cusack malin akerman

Leikstjóri Cell er Tod „Kip“ Williams ( Paranormal Activity 2 ).

Myndin er byggð á samnefndri heimsendasögu eftir Stephen King, en Williams útfærði handritið sjálfur ásamt Adam Alleca ( The Last House on the Left ).

Myndin fjallar um dularfullt farsímamerki sem er sent um allt farsímakerfið og breytir mannkyninu í skynlausar skepnur.  Cusack leikur baslandi listamann sem slæst í lið með litlum hópi eftirlifenda sem fetar sig saman í gegnum eyðibyggðir New England fylkis, til að leita svara við þessum ófögnuði, auk þess sem Cusack leitar sonar síns.

Forstjóri Saban Films, Bill Bromiley segir: „Stephen King er frægur sem meistari hrollvekjunnar. Með því að leiða þá Tod saman, og frábært leikaralið, en þeir sameinast á ný, King, John Cusack og Samuel L. Jackson í fyrsta skipti síðan í 1408, þá búum við hér til einstaka nútímasögu um það að lifa af harðræði.“

„Ég naut þess að vinna að Cell og er ánægður með hvernig hún þróaðist,“ segir King. „Kip Williams hefur gert ógnvekjandi en mjög skemmtilega mynd. En þú gætir viljað henda símanum þínum í frystikistuna eftir að hafa horft á myndina.“