Hefnir sín á snjóplógnum

Írski hasarleikarinn Liam Neeson fetar nýjar slóðir í næstu kvikmynd sinni, Hard Powder. Þar mun hann fara með hlutverk snjóplógsstjóra, sem ákveður að hefna fyrir morðið á syni sínum.

Neeson leikur hlutverk Nels Coxman í myndinni sem Lionsgate og Summit Entertainment framleiða. Stefnt er að frumsýningu erlendis 8. febrúar á næsta ári.

Nýbúið er að velja Coxman sem Borgara ársins í litla bænum sem hann býr í í Colorado, fyrir að halda vegunum snjólausum allan veturinn.

Líf Nels og eiginkonu hans, sem leikin er af Laura Dern, er einfalt og hamingjuríkt, þar til ógæfan ríður yfir, þegar dóphringur drepur son þeirra.

„Með ekkert í höndunum annað en venjuleg handverkfæri og snjóplóginn sinn, heldur Nels í hefndarför, til að finna þá sem ábyrgir eru fyrir morðinu. Með því hleypir hann af stað gengjastríði, sem setur bæinn hans í hættu, nema hann geti sjálfur kveðið það í kútinn.“

Snjóplógurinn er nýjasta tegundin af farartæki sem Nelson tekur til handargagns, en hann hefur áður leitað hefnda í flugvél í Non-Stop frá 2014, og í lest í The Commuter, frá 2018.

Hard Power er í raun endurgerð á norskri kvikmynd sem frumsýnd var árið 2014, sem heitir In Order of Disappearance, þar sem Mamma Mia leikarinn Stellan Skarsgård fór með aðalhlutverkið.

Engan bilbug er að finna á Liam Nesson þó hann sé kominn fast að sjötugu, en hann hefur einnig verið ráðinn í hlutverk í væntanlegri endurræsingu Men in Black seríunnar. Nýlega lét leikarinn hafa eftir sér þessu til staðfestingar: „Ég ætla að leika í hasarmyndum þar til ég verð kominn undir græna torfu.“