Kvikmyndin The Theory of Everything var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto um helgina. Myndin fjallar um yngri ár eðlisfræðingsins Stephen Hawking er hann stundaði nám við háskólann í Cambridge og þegar hann kynntist fyrstu konu sinni, Jane.
Myndinni er leikstýrt af James Marsh sem áður hefur gert kvikmyndina Man on Wire. Það er leikarinn Eddie Redmayne sem fer með hlutverk Hawking og Felicity Jones fer með hlutverk konu hans, Jane.
Vefmiðillinn Variety greinir frá því að gestir frumsýningarinnar hafi allir farið út af sýningunni með tárin í augunum. Marsh sá um að kynna myndina fyrir áhorfendum áður en sýning hófst og sagði að verkefnið hafi verið eitt það þýðingarmesta sem hann hafi tekið að sér á ferlinum.
Marsh segist sjálfur vera mikill aðdáandi Hawking og að það hafi verið mikill heiður að fá að hitta hann aðeins örfáum dögum áður en tökur áttu að hefjast. Hawking var síðan sá fyrsti sem fékk að sjá myndina og að sögn Marsh þá þurfti hjúkrunarkona að þurrka tárin úr augum hans á meðan hann horfði á myndina.