Kvikmyndaleikstjórinn Steven Spielberg sagði í fréttaskýringaþættinum bandaríska, 60 minutes, að hann væri ekki lengur spenntur fyrir því að búa til hasarmyndir: „Ég veit núna, á þessum tímapunkti á ferli mínum, gæti ég gert hasarmyndir í svefni,“ sagði Spielberg í þættinum. „Ég er ekki lengur spenntur fyrir hasarnum,“ bætti hann við.
Spielberg er þekktur fyrir hasarmyndir eins og Jaws, Indiana Jones myndirnar, Jurassic Park og fleiri stórmyndir. Nýjasta mynd hans heitir Lincoln og fjallar um 16. forseta Bandaríkjanna, Abraham Lincoln.
Það er samt best að taka þessum orðum leikstjórans með smá fyrirvara, því hann er með amk. eina mynd í smíðum sem inniheldur hasar, vísindaskáldsöguna Robopocalypse, en Anne Hathaway og Chris Hemsworth hafa verið orðuð við leik í þeirri mynd, sem væntanleg er í bíó árið 2014.