J.K.Rowling, höfundur bókanna um Harry Potter, sem bíómyndir hafa verið gerðar eftir, er nú sökuð um að hafa stolið hugmyndum að bókunum frá öðrum breskum höfundi, Adrian Jacobs. Málaferli vegna þessa eru fyrirhuguð í Ástralíu, en fulltrúar dánarbús Jacobs eru búsettir þar í landi.
Í ákærunni kemur fram að Rowling hafi í bók sinni „Harry Potter and the Goblet of Fire“ afritað stóra hluta úr bók Jacobs frá árinu 1987, „The Adventures of Willy the Wizard — No. 1 Livid Land.“ Dánarbúið segir einnig að margar aðrar hugmyndir Jacobs úr Willy the Wizard bókum hans hafi verið notaðar í ýmsum Harry Potter bókum. Jacobs lést í London árið 1997.
“Harry Potter and the Goblet of Fire“ er fjórða Harry Potter bókin, og var gefin út árið 2000.
Ég tel þetta mál vera milljarða virði, sagði Max Markson sem er lögfræðingur dánarbúsins.
Rowling hefur ekki tjáð sig um málið, en Bloomsbury útgáfufyrirtæki hennar vísar öllum ásökunum til föðurhúsanna.

