Harmþrungið ferðalag Amy – Frumsýning!

Græna ljósið frumsýnir nýja heimildarmynd um hina mögnuðu söngkonu Amy Winehouse, Amy, sem lést langt fyrir aldur fram árið 2011, miðvikudaginn, 29. júlí.

amy

Í myndinni, sem er eftir Bafta-verðlaunahafann Asif Kapadia, er sýnt áður óbirt myndefni og leitast við að segja harmræna sögu tónlistarkonunnar með hennar eigin orðum.

Amy lést af völdum áfengiseitrunar í júlí 2011, aðeins 27 ára gömul. „Þetta er einstaklega nútímaleg, tilfinningaþrungin mynd sem á sannarlega erindi við samtímann því hún bæði fangar hann og varpar ljósi á heiminn sem við búum í á einkar frumlegan máta. Amy var einstaklega hæfileikaríkur listamaður sem náði eyrum og augum heimsbyggðarinnar. Hún skrifaði og söng frá hjartanu og allir urðu umsvifalaust gagnteknir. Það var því ákaflega sorglegt þegar hún brotnaði smám saman undan oki fjölmiðlaáreitis,  sambandsvandamála, risavaxinni velgengni og vafasams lífsstíls,“ segir í tilkynningu frá Græna ljósinu.

Í tilkynningunni segir einnig að Amy hafi fengið stórkostlegar viðtökur og gagnrýnendur jafnt sem aðrir áhorfendur keppist við að lofa myndina.

Kíktu á stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: