Hardy og Rapace verða Sovétmenn

Um daginn sögðum við frá því að þau Noomi Rapace úr Karlar sem hata konur og Tom Hardy úr The Dark Knight Rises, myndu leika saman í glæpadramanu Animal Rescue í leikstjórn Michael R. Roskam, sem byggð er á smásögu Dennis Lehane.

Sú mynd mun byrja í tökum nú í mars nk. Þau tvö geta greinilega ekki fengið nóg af hvoru öðru því þau eiga nú í viðræðum um að leika í annarri mynd saman, Child 44, sem hasarmyndaleikstjórinn Ridley Scott framleiðir og Daniel Espinosa mun leikstýra, en hann er þekktur fyrir myndir eins og Safe House og Easy Money.

Child 44 gerist á sjötta áratug síðustu aldar og fjallar um sovéskan lögreglumann sem Hardy leikur, en eiginkona hans, sem Rapace leikur, býr yfir leyndarmálum. Lögreglumaðurinn fær það verkefni að rannsaka barnslát.

Handritið skrifar Richard Price, en framleiðsla á að hefjast í Búdapest í maí, að því er segir í The Hollywood Reporter.

Child 44 er byggð á skáldsögu rithöfundarins Tom Rob Smith og gerist í Sovétríkjunum árið 1953.

Þegar stríðshetjan Leo Stepanovich Demidov, sem er rísandi stjarna innan MGB, sem er öryggislögregla ríkisins, er ráðinn til að rannsaka barnadauða, þá verður Leo pirraður, í fyrsta lagi af því að það tekur tíma frá mikilvægari málum að hans mati, en ekki síður vegna þess að foreldrar barnsins eru sannfærðir um að barnið hafi verið myrt. Í Rússlandi á valdatíma Stalíns þá var ekkert til sem hét morð og einu glæpamennirnir sem til voru voru óvinir ríkisins.

Eftir að hafa reynt að ná stjórn á ofbeldishneigð næstráðanda síns, þá neyðist Leo til að rannsaka sína eigin konu, hina fögru Raisa, sem er grunuð um að hneygjast til ensk-amerískra gilda.  Þegar Leo hefur verið lækkaður í tign og hrakinn frá Moskvu þá rekst Leo á meiri sönnunargögn varðandi barnamorðingjann.