Hardy gæti orðið Al Capone

Breski kvikmyndaleikarinn Tom Hardy er núna upptekinn við að gera Christian Bale, eða Batman, lífið leitt, sem Bane í The Dark Knight Rises, en vinna við þá mynd stendur nú yfir. Á sama tíma er hann að leggja línurnar fyrir næstu verkefni.
Samkvæmt Empire kvikmyndaritinu þá er mögulegt að hann taki að sér hlutverk í myndinni Cicero, sem er mynd um uppgang glæpaforingjans Al Capone, en sagan segir að Harry Potter leikstjórinn David Yates sé mjög spenntur fyrir því verkefni, en þetta er þó allt á umræðustigi ennþá.

Í stórum dráttum þá á Cicero að fjalla um það þegar Al Capone er að klifra upp metorðastigann innan glæpaheimsins.

Warner Brothers framleiðslufyrirtækið er að skoða hvort að þarna gæti orðið um þrjár myndir alls að ræða, eina sem fylgist með uppgangi Capones, annarri sem segir frá því þegar veldi hans stóð í sem mestum blóma og sú þriðja um fall hans.

Eins og fyrr sagði þá er allt við þessa mynd, eða myndir, á upphafsreit, og hvorki Yates eða Hardy búnir að skrifa undir eitt né neitt. Hardy er líka með annað verkefni á sinni dagskrá auk Batman, en hann á að leika sjálfan Mad Max í myndinni Fury Road undir leikstjórn George Miller, en tökur geta vonandi hafist í byrjun næsta árs á þeirri mynd.

Cicero er annars bara eitt af þeim verkefnum sem Warner Brothers er að ræða við David Yates, en menn eru einnig spenntir fyrir að gera fleiri en eina mynd eftir sögu hrollvekjumeistarans Stephens Kings, The Stand.

Einnig stendur Yates til boða, samkvæmt Empire, að leikstýra mynd sem byggð er að teiknimyndasögu frá Vertigo, Fables, en sagan fjallar um ævintýraverur sem búa í hluta af New York sem kallast Fabletown. Þar eru persónur á kreiki eins og ljóti úlfurinn ( Big Bad Wolf).

Þriðja myndin sem Empire talar um, og er verið að veifa framan í Yates, er mynd eftir sögu Jonathan Tropper, This is Where I Leave You.

Talið er að The Stand sé sú mynd sem Warner eru spenntastir fyrir, en allt veltur auðvitað á því hvað Yates vill gera.

Allt er þetta þó á umræðu og slúðurstigi, og lítið fast í hendi enn sem komið er.