Óskarsverðlaunaleikarinn Tom Hanks er sagður vera farinn að snuðra utan í nýrri mynd Kathryn Bigelow, Sleeping Dogs, en það er fyrsta verkefni Bigelow eftir Óskarsverðlaunamynd hennar The Hurt Locker, en sú mynd fjallaði um sprengjuleitarteymi í Írak.
Myndin er framleidd af Paramount Pictures, og var áður kölluð Triple Frontier. Í myndinni leiða saman hesta sína á ný þau Bigelow og handritshöfundur Hurt Locker, Mark Boal.
Myndin á að gerast á landamærum Paragvæ, Argentínu og Brasilíu, en þar blómstrar skipulögð glæpastarfsemi. Fjallað er um fimm menn á mismunandi aldri sem vinna á þessu svæði.
Þetta verkefni varð skyndilega mjög eftirsótt eftir að Hurt Locker fékk sex Óskarsverðlaun, þar á meðal fyrir bestu mynd og besta leikstjóra.
Mörg leikaranöfn hafa verið nefnd til sögunnar í tengslum við þessa mynd, þar á meðal Leonardo di Caprio, Christian Bale, Sean Penn, Jeremy Renner, og svo nú sjálfur Tom Hanks.