Russell Crowe leikur aðalhlutverkið í væntanlegri kvikmynd sem ber heitið Fathers and Daughters. Gabriele Muccino mun leikstýra en hann hefur áður leikstýrt myndum á borð við Seven Pounds og Playing For Keeps.
Nýtt plakat fyrir myndina var opinberað um helgina og má segja að það setji tóninn fyrir hádramatíska kvikmynd.
Handrit myndarinnar skrifaði Brad Desch og er saga á milli feðgina sem búa í New York City, en sagan er sögð með 25 ára millibili.
Crowe leikur frægan rithöfund og ekkil sem á í erfiðleikum vegna geðsjúkdóms, á sama tíma og hann reynir sem best að ala upp 5 ára gamla dóttur sína. Myndin fjallar einnig um dótturina þegar hún er orðin 30 ára í nútímanum í Manhattan þar sem hún er að vinna úr erfiðum málum úr æsku sinni.
Hlutverk dótturinnar er í höndum Amanda Seyfried, en hún sást síðast í mynd um klámleikkonuna Lovelace. Seyfried hefur haft nóg að gera undanfarið ár. Fyrst lék hún mikilvægt hlutverk í Les Miserables, svo lék hún í Lovelace og mun hún næst sjást í gamanmyndinni A Million Ways To Die in the West í leikstjórn Seth MacFarlane.
Breaking Bad leikarinn Aaron Paul fer með hlutverk elskhuga Seyfried og ættu þau ekki að eiga erfitt með það því þau hafa áður leikið saman í þáttunum Big Love. Paul fór síðast með aðalhlutverkið í spennumyndinni Need For Speed.
Með önnur hlutverk í myndinni fara Jane Fonda, Diane Kruger, Janet McTeer, Justin Long og Octavia Spencer.
Fathers and Daugthers verður frumsýnd á næsta ári.