Cooming Soon vefsíðan segir frá því í dag, og hefur það eftir TheWrap, að Ryan Gosling, eigi í viðræðum um að leika titilhlutverkið í The Lone Ranger, á móti Johnny Depp, sem myndi leika hlutverk aðstoðarmannsins Tonto.
Talað er um að viðræður séu fremur skammt á veg komnar og ekki sé víst að pláss sé fyrir verkefnið í þéttskipaðri dagskrá Goslings. Það er sjálfur Gore Verbinski, leikstjóri Rango og fyrstu þriggja Pirates of the Carribbean myndanna, sem mun leikstýra en framleiðandinn er sjálfur ofurframleiðandinn Jerry Bruckheimer.
Næsta verkefni Gosling er myndin Logan´s Run í haust, en það eru Warner Bros sem gera þá mynd.
The Lone Ranger byrjaði upphaflega sem útvarpsþáttur á fjórða áratug síðustu aldar, og þróaðist út í kvikmyndir, sjónvarpsþætti og teiknimyndasögur, leikföng, skáldsögur og fleira. Leikarinn Clayton Moore varð Lone Ranger árið 1949, og lék hetjuna í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á sjötta áratug síðustu aldar. Hann hélt áfram að koma fram í gervi Lone Ranger við ýmis tækifæri allt til ársins 1999 þegar hann lést.