Bandaríski leikarinn Kevin Spacey hefur farið á kostum í þáttaröðunum House of Cards og á að baki magnaðan feril í myndum á borð við Seven og American Beauty.
Þrátt fyrir að vera ein skærasta stjarna Hollywood þá er hann ekki beint hrifinn af kvikmyndaiðnaðinum þessa stundina.
„Ef þú ert ekki Martin Scorsese eða með mjög þýðingarmikið hlutverk þá geturu farið til fjandans.“ sagði Spacey í viðtali við Hollywood Reporter á dögunum er hann var spurður um næstu hlutverk hans í kvikmyndum. „Ég er ekki að fara að leika bróðir einhvers. Ég er ekki að fara að leika yfirmann og ég er ekki að fara að leika formann.“
Leikarinn hefur alltaf farið sínar leiðir og virðist sem það hefur gengið vel fyrir hann hingað til.
„Fólk hélt að ég væri klikkaður þegar ég flutti til London og byrjaði með leikhús, fólk hélt að ég væri klikkaður þegar við gerðum samning við Netflix fyrir House Of Cards. Ég vanur því að fólk haldi að ég sé klikkaður og ég elska það.“
Spacey hefur þó verið orðaður við hlutverk fyrrum forsætisráðherra Bretlands, Winston Churchill. Myndin ber heitið Captain of the Gate og verður í framleiðslu Sierra og StudioCanal. Ben Kaplan, sem nýverið skrifaði sjónvarpsmynd um Ronald Reagan, er handritshöfundur myndarinnar. Leikstjóri myndarinnar hefur ekki verið staðfestur.