Garfield og Webb í The Amazing Spider-Man 2

Andrew Garfield mætir aftur til leiks í gervi Peter Parkers, betur þekktur sem köngulóarmaðurinn, í mynd númer tvö af The Amazing Spider-Man, og Marc Webb mun setjast aftur í leikstjórastólinn. Columbia Pictures framleiðslufyrirtækið tilkynnti þetta í dag. Kærasta Parkers, Emma Stone, á í viðræðum um að vera einnig með á ný, í hlutverki Gwen Stacy.

Webb hafði aðeins gert eina mynd í fullri lengd áður en hann gerði The Amazing Spider-Man, 500 Days of Summer, en hann tók Spider-Man öðrum tökum en fyrirrennari hans hafði gert í fyrri framhaldsmyndum um hetjuna,  og niðurstaðan var að myndin þénaði 750 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu, en hinn 29 ára Garfield leysti af hólmi Tobey Maguire, sem lék Spider-Man í síðustu framhaldsseríu.

Ekkert hefur verið gefið uppi um hvaða illmenni Spider-Man þarf að takast á við í nýju myndinni, en það er aldrei neinn skortur á óþokkum í heimi Spider-Man. Sem dæmi um mögulega óvini má nefna þorparana Carnage, Kingpin, Vulture og sjálfan Mysterio.

Handrit myndarinnar verður skrifað af Alex Kurtzman og Roberto Orci, ásamt Jeff Pinker, byggt á uppkasti eftir James Vanderbuilt. Kurtzman og Orci eru eitt eitt vinsælasta handritsteymi í Hollywood, og skrifuðu m.a. Transformers og nýju Star Trek myndina, sem og framhaldsmyndina sem nú er í undirbúningi.

Ef allt fer eins og áætlað er þá mun nýja The Amazing Spider-Man myndin hefja tökur snemma á næsta ári, og verða frumsýnd hugsanlega 2. maí, 2014.

Haldið ykkur fast!