Garfield í nýjum noir-glæpatrylli

garfieldThe Amazing Spider Man leikarinn Andrew Garfield, sem við sáum nýlega í 99 Homes og er væntanlegur á hvíta tjaldið í nýju Mel Gibson myndinni Hacksaw Ridge, hefur verið ráðinn í aðalhlutverk myndarinnar Under the Silver Lake, sem er glæpatryllir eftir handriti hrollvekjuhöfundarins David Robert Mitchell ( It Follows,  The Myth of the American Sleepover), sem einnig mun leikstýra.

Tökur eiga að hefjast nú í sumar, 2016. Myndinni er lýst sem nútíma noir-glæpatrylli, sem gerist í Los Angeles, en meira er ekki vitað að svo stöddu.

„Næsta mynd verður drama. ( Held ég ),“ sagði leikstjórinn við Filmmaker tímaritið á síðasta ári. „Ég er einnig með einskonar ráðgátu ævintýri, með grín ívafi. Ég er með spæjarasögu. Ég er einnig með vísindaskáldsögu. Ég er með allskonar dót. Þetta er bara spurning um hvað fólk er tilbúið að láta mig fá peninga í, þá mun ég gera það.“