Gagnrýnendur – Slakið á

Peter Farrelly annar framleiðandi gamanmyndarinnar Movie 43 sem var frumsýnd í Bandaríkjunum um helgina, segir að gagnrýnendur verði að slaka á.

Myndin hefur hlotið hræðilegar viðtökur hjá gagnrýnendum, og hefur meðal annars verið kölluð „Citizen Kane of awful“, sem væri hægt að útleggja sem einfaldlega versta mynd sögunnar.

Myndin er full af stórstjörnum, og á plakati myndarinnar montar hún sig af því að hafa yfir að ráða stærsta hópi stjarna sem nokkru sinni hefur leikið í einni mynd.

Peter Farrelly skrifaði og leikstýrði metsölumyndunum There’s Something About Mary og Dumb & Dumber með bróður sínum Bobby.

„Hér eru skilaboð til gagnrýnenda: Movie 43 er ekki heimsendir. Þetta er bara 6 milljón dala bíómynd þar sem við vorum að reyna að gera eitthvað nýtt. Þannig að látið okkur í friði,“ skrifaði hann á Twitter síðu sína.

Síðan bætti hann við: „Skilaboð til gagnrýnenda: Þið eruð alltaf að kvarta um að það sé aldrei neitt nýtt gert í Hollywood, og þegar það er gert, þá bilist þið. Slakið á.“

Í Movie 43 leika m.a. Hugh Jackman, Emma Stone, Gerard Butler og Halle Berry, ásamt Kate Winslet og Richard Gere.

Movie 43 er í raun safn 12 stuttmynda, og hver og ein þeirra er með mismunandi leikstjóra. Sögurnar tengjast í gegnum sögu þriggja unglinga sem eru að leita að bönnuðustu mynd heims á netinu.

Peter Howell hjá blaðinu Toronto Star kallaði myndina „Versta mynd allra tíma“ og bætti við að hún væri „mesta sóun á hæfileikum í sögu kvikmyndanna.“

Myndinni hefur verið betur tekið af almenningi í Bretlandi, en þar var hún sjöunda vinsælasta mynd síðustu viku, þó svo að gagnrýnendur hafi jarðað hana eins og í Bandaríkjunum.

Menn eru þegar farnir að líkja myndinni við flopp eins og John Carter, Gigli og Howard the Duck.

 

Stikk: