Fyrsti huldumaðurinn á Sundance?

Hinn alræmdi ( og algjörlega óþekkti ) veggjakrotslistamaður, Banksy, gæti verið um það
bil að fremja sitt stærsta prakkarastrik til þessa með hjálp breska
kvikmyndaleikarans Rhys Ifans, með heimildamyndinni „Exit Through the Gift Shop,“ eða „Banksy
myndinni“ , sem Ifans talar inn á. Myndin verður forsýnd á Sundance
kvikmyndahátíðinni nk. sunnudagskvöld.

Myndin, sem kynnt er sem heimildamynd um götulist, fer með áhorfendur vítt
og breitt um veröld götulistarinnar, hér
og hvar um heiminn þveran og endilangan. Í kynningu segir að kvikmyndagerðarmaðurinn Terry Guetta sé maðurinn á bakvið þetta verkefni, en
markmið hans í upphafi hafi verið að sökkva sér djúpt í viðfangsefnið og gera því mjög
nákvæm og góð skil. 

Gerð
myndarinnar tók hann átta ár, og ferðaðist hann
með bakpoka um alla Evrópu og Bandaríkin. „Eftir að hann hitti frægasta
götulistamann samtímans, Bretann Banksy, fóru hlutirnir að taka nýja stefnu,“  segir í kynningu myndarinnar.

Það sem gerir þessa mynd svo leyndardómsfulla og spennandi er að ekki er
vitað hvort að það er sjálfur Banksy sem er leikstjóri myndarinnar, eða einhver
allt annar, enda er Banksy huldumaður. “Sundance hátíðin hefur sýnt myndir
eftir lítt þekkta listamenn, en aldrei einhverja sem eru nafnlausir,” sagði
framkvæmdastjóri hátíðarinnar, John Cooper. 
Hann lýsir myndinni sem “að hluta til persónulegu ferðalagi og að hluta
til ákveðinni afhjúpun á listheiminum.”

Löggur að kyssast, eftir Banksy.