Fyrsta íslenska Cannes verðlaunamyndin á RIFF

hvalfjörðurStuttmyndin Hvalfjörður eftir Guðmund Arnar Guðmundsson verður frumsýnd á Íslandi þann 30. september næstkomandi á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF. Myndin vann til verðlauna í flokki stuttmynda á Cannes-hátíðinni í Frakklandi í vor, og er hún fyrsta íslenska kvikmyndin sem vinnur til verðlauna á hátíðinni, sem telst til þeirra virtustu í kvikmyndaheiminum.

Myndin segir frá samskiptum tveggja bræðra sem búa í Hvalfirði ásamt foreldrum sínum. Við fylgjumst með lífi fjölskyldunnar með augum yngri bróðursins, er óvæntir atburðir eru í þann mund að marka örlög þeirra.

Með hlutverk í myndinni fara Ágúst Örn B. Wigum, Einar Jóhann Valsson, Valdimar Örn Flygenring og Unnur Ösp Stefánsdóttir.

Nánari upplýsingar má finna á www.whalevalley.com og hér á kvikmyndir.is.