Fyrsta fjölskyldan á ferðalagi – Stikla

Stikla númer 2. er komin fyrir teiknimyndina The Croods, sem fjallar um fyrstu fjölskylduna á jörðinni. Aðstoðarleikstjóri How to Train Your Dragon, Chris Sanders, er leikstjóri og samstarfsmaður hans er Kirk De Micco, leikstjóri Space Chimps.

Í fyrstu stiklunni, sem sjá má hér á undirsíðu myndarinnar á kvikmyndir.is, var fjölskyldan aðallega inni í hellinum sínum, en þessi nýja stikla gefur betri innsýn í söguþráð myndarinnar.

Sjáið stikluna hér að neðan:

Eins og sjá má í stiklunni þá er heimsmynd fjölskyldunnar í hættu og fjölskyldan þarf að flytja sig til öruggari heimkynna. Í stiklunni er kynnt til sögunnar ný persóna sem hjálpar þeim á ferðalagi þeirra. Einnig heyrum við nokkra nýja brandara, ásamt fleiru.

Myndin er forsöguleg ævintýramynd og gamanmynd, sem fylgist með fyrstu fjölskyldunni í sögunni, og ferðalagi sem þau fara í eftir að hellirinn þeirra, sem hingað til hefur verið þeirra helsta skjól, er eyðilagður.
Þau ferðast í gegnum stórbrotið landslag og uppgötva ótrúlegan nýjan heim sem er fullur af frábærum verum – og líf þeirra er breytt til frambúðar.

Í myndinni er hópur góðra leikara, þar á meðal Nicolas Cage, Ryan Reynolds, Emma Stone, Catherine Keener, Clark Duke og Cloris Leachman.

The Croods kemur í bíó í mars nk.