Fúsi gerir það gott í Berlín

fusiFúsi, nýjasta kvikmynd Dags Kára (Nói Albínói, The Good Heart) var heimsfrumsýnd á Berlinale kvikmyndahátíðinni í Berlín í gær. Hlaut hún frábærar viðtökur meðal hátíðargesta og hefur þegar hlotið ðalðfar jákvæða dóma gagnrýnenda, þar á meðal hjá Screen International og The Hollywood Reporter ásamt nokkrum þýskum fjölmiðlum. Fúsi, sem ber heitið Virgin Mountain á ensku, er sýnd sem hluti af Berlinale Special Gala, sem samanstendur af myndum sem eru sérstaklega valdar af Dieter Kosslick hátíðarstjóra. Kosslick kynnti myndina sérstaklega fyrir heimsfrumsýninguna og heilsaði upp á Dag Kára og íslensku sendinefndina. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Í lok sýningar uppskáru aðstandendur myndarinnar dynjandi lófatak og var Dagur Kári hylltur af frumsýningargestum. Var hann kallaður upp á svið ásamt Baltasar Kormáki og Agnesi Johansen framleiðendum myndarinnar. Að lokum var Gunnar Jónsson aðalleikari myndarinnar kallaður upp á svið og sérstaklega hylltur enda frumsýningargestir auðsjáanlega sérlega ánægðir með frammistöðu hans. Einnig voru viðstaddir sýninguna danskir meðframleiðendur myndarinnar, Bo Ehrhardt og Mikkel Jersin, ásamt sendiherra Íslands í Þýskalandi, Gunnari Snorra Gunnarssyni.

Búið er að sýna myndina á sérstakri sýningu fyrir blaðamenn og má því búast við fjölda erlendra dóma í vikunni. Einnig er búið að sýna myndina á markaðssýningum þar sem dreifingaraðilum og stjórnendum kvikmyndahátíða var boðið sérstaklega. Spyrst myndin mjög vel út meðal þeirra, svo vel að ákveðið hefur verið að bæta við einni markaðssýningu við þær þrjár sem þegar hafa farið fram. Fúsi hefur nú þegar verið seld til eftirtalinna landa: Þýskalands, Frakklands, Belgíu, Hollands, Lúxemborg og Brasilíu. Væntir franska dreifingarfyrirtækið BAC að fleiri tilboð muni berast í kjölfar frumsýningarinnar.

Fúsi segir frá titilpersónunni Fúsa, sem er liðlega fertugur og býr einn með móður sinni. Líf hans er í afar föstum skorðum og lítið sem kemur á óvart. Hann minnir á unga sem hefur komið sér þægilega fyrir í hreiðrinu og hefur enn ekki haft kjark til að hefja sig til flugs. Þegar ung stúlka og kona á hans reki koma óvænt inn í líf hans, fer allt úr skorðum og hann þarf að takast á við ýmislegt í fyrsta sinn.

Dagur Kári leikstýrir og skrifar handritið að Fúsa, sem er framleidd af þeim Baltasar Kormáki og Agnesi Johansen fyrir framleiðslufyrirtækið Sögn. Með aðalhlutverk fara Gunnar Jónsson og Ilmur Kristjánsdóttir. Tónlist myndarinnar er samin af slowblow, hljómsveit sem samanstendur af Degi Kára og Orra Jónssyni. Meðframleiðslufyrirtæki er hið danska Nimbus Film (sjónvarpsþáttaröðin Broen og kvikmyndirnar Festen, Mifune’s sidste sang og Submarino).

Þess má geta að hið virta tímarit Variety tók viðtal við Dag Kára í aðdraganda frumsýningarinnar þar sem hann ræðir um myndina. Viðtalið má nálgast á heimasíðu Variety.

Fúsi verður frumsýnd hér á landi þann 20. mars næstkomandi í Smárabíói, Háskólabíói og Laugarásbíói.