Ástir, ævintýri og morðgáta. Er hægt að biðja um eitthvað meira? Á morgun föstudag fáum við einmitt þrjár kvikmyndir sem gefa okkur dágóðan skammt af þessu öllu saman.
Marry Me segir frá tónlistarmönnunum og ofurstjörnunum Kat Valdez og Bastian sem ætla að giftast frammi fyrir aðdáendum sínum um allan heim. Verður athöfninni streymt á netinu svo allir geti fylgst með. En þegar Kat kemst að því, nokkrum sekúndum áður en athöfnin hefst, að Bastian hefur verið henni ótrúr, þá ákveður hún að giftast í staðinn Charlie, ókunnugum manni úr áhorfendaskaranum. Þó þetta hafi gerst alveg óvænt, þá þróast atvikið upp í ástarsamband, en stóra spurningin er hvort að fólk úr jafn ólíkri átt nái að bindast böndum til framtíðar….
Jennifer Lopez, sem leikur aðalkvenhlutverkið í myndinni, mætti í brúðarkjól á frumsýningu myndarinnar í Los Angeles á dögunum en með henni var að sjálfsögðu kærastinn Ben Affleck.
Kjóllinn kom úr smiðju Giambattista Valli.
Parið lék við hvurn sinn fingur á rauða dreglinum eins og sjá má á myndum hér.
Nuddbyssan olli misskilningi
Þá er það ævintýramyndin Uncharted. Hún er gerð eftir vinsælum tölvuleik og við kynnum Nathan Drake í sínu fyrsta fjársjóðsleitarævintýri ásamt félaga sínum Victor „Sully“ Sullivan. Leikurinn berst út um allan heim og hætturnar leynast við hvert fótmál. Ásamt því að skima eftir fjársjóðum leita þeir einnig að löngu týndum bróður Nathans.
Cinemablend segir frá því að aðalleikararnir þeir Mark Wahlberg og Tom Holland hafi orðið góðir vinir meðan á tökum stóð, og Wahlberg hafi gefið Holland nuddbyssu til að vinna á stífum vöðvum. Hann sagði svo frá því í gríni að Holland hafi talið að Wahlberg hefði verið að gefa sér hjálpartæki ástarlífsins, áður en hann áttaði sig á virkni græjunnar.
Íslendingar elska Poirot
Íslendingar elska Agöthu Christie bækurnar og myndirnar sem gerðar hafa verið eftir bókunum. Hver man ekki eftir myndinni Dauðinn á Níl frá 1978 með Peter Ustinov í hlutverki Poirot, spæjarans knáa frá Belgíu.
Nú hefur hinn margverðlaunaði breski leikstjóri Kenneth Branagh gert mynd eftir einmitt sömu sögu, en hún kemur í framhaldi af annarri mynd, Morðið í Austurlandahraðlestinni, sem Branagh gerði árið 2017.
Í Dauðanum á Níl er Hercule Poirot kominn til Egyptalands og rannsakar þar morð á kvenkyns erfingja á ánni Níl.