Frumsýning: The Great Gatsby

Sambíóin frumsýna nýjustu mynd Baz Luhrmann, The Great Gatsby, föstudaginn næsta, þann 17. maí.

Myndin fjallar um fyrrverandi hermann á Long Island sem kemst í kynni við moldríkan nágranna sinn og flækist um leið inn í heim þar sem ekkert er eins og það sýnist.

Skáldsagan sem myndin er byggð á, The Great Gatsby eftir F. Scott Fitzgerald, kom út árið 1925 og er talin á meðal bestu og merkustu skáldsagna sem skrifaðar hafa verið á enska tungu.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:

Það er Baz Luhrman (Strictly Ballroom, Moulin Rogue!, Romeo + Juliet, Australia) sem leikstýrir myndinni og skrifar handritið ásamt Craig Pearce, en í aðalhlutverkum eru þau Leonardo DiCaprio, Carey Mulligan, Tobey Maguire, Isla Fisher, Jason Clarke og Joel Edgerton.

The Great Gatsby gerist sumarið 1922 á Long Island og segir frá fyrrverandi hermanninum og núverandi sölumanni Nick Carraway og kynnum hans af hinum dularfulla og forríka Jay Gatsby, sem heldur miklar veislur á setri sínu en lætur sjálfur lítið fyrir sér fara, enda hafa fæstir þeirra sem sótt hafa veislurnar hitt hann í eigin persónu.

Þeir Nick og Gatsby verða fljótlega ágætir vinir en um leið fer í gang atburðarás sem á eftir að verða örlagarík fyrir allar þær aðalpersónur sem við sögu koma.

Aðalhlutverk: Leonardo DiCaprio, Carey Mulligan, Tobey Maguire, Joel Edgerton, Isla Fisher og Jason Clarke.

Leikstjórn: Baz Luhrmann

Sýningarstaðir: Sambíóin Kringlunni, Egilshöll, Keflavík og Akureyri, Háskólabíó‚ Ísafjarðarbíó og Bíóhöllin Akranesi.

Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

• The Great Gatsby þykir fanga afar vel andrúmsloftið á austurströnd Bandaríkjanna á eftirstríðsárum fyrri heimsstyrjaldarinnar og verður gaman að sjá hvernig Luhrman nálgast viðfangsefnið, en myndin mun vafalaust verða borin saman við samnefnda mynd Jacks Clayton árið 1974 þar sem þau Robert Redford, Mia Farrow og Sam Waterstone voru í aðalhlutverkum.