Myndform frumsýnir spennumyndina Only God Forgives á morgun miðvikudaginn 31. júlí í Laugarásbíói, Háskólabíói og í Borgarbíói Akureyri.
Í aðalhlutverkum eru þau Ryan Gosling og Kristin Scott Thomas.
Sjáðu sýnishorn úr myndinni hér fyrir neðan:
„Leikstjóri kvikmyndarinnar DRIVE (Nicolas Winding Refn), ásamt aðalleikara sömu myndar (Ryan Gosling), leiða saman hesta sína að nýju í kvikmyndinni ONLY GOD FORGIVES,“ segir í tilkynningu Myndforms.
Sögusvið myndarinnar er Tæland, þar sem enski glæpamaðurinn Julian (Gosling) og bróðir hans, Billy (Burke), reka saman hnefaleikaklúbb. Klúbburinn er yfirskin fyrir arðbæra smyglstarfsemi og bræðurnir nota klúbbinn til þess að senda fíkniefni til Lundúna þar sem óvægin móðir þeirra, Jenna (Scott Thomas), situr í forsvari fyrir valdamiklum glæpasamtökum. Þegar Jenna fréttir að Billy hafi verið myrtur fer hún til Bangkok til þess að sækja lík hans og koma þeim sem eru valdir að dauða hans fyrir kattarnef.
Aldursmerking: 16 ára
Fróðleiksmolar til gamans:
• Only God Forgives er stranglega bönnuð börnum og er öðrum viðkvæmum ráðlagt frá því að sjá hana því sum atriðin eru vægast sagt stuðandi. Fyrir þá sem kalla ekki allt ömmu sína þegar bíómyndaofbeldi er annars vegar er myndin hins vegar tær snilld og um leið í sínum eigin sérflokki, rétt eins og myndi Quentins Tarantinos. Ef þér líkaði við einhverja af fyrri myndum Nicolas Winding Refn þá máttu alls ekki missa af þessari.
• Myndin var tilnefnd til Gullpálmans í Cannes.