Frumsýning: Hummingbird

Sambíóin frumsýna myndina Hummingbird í Sambíóunum um land allt á morgun, miðvikudaginn 7. ágúst.

jason statham hummingbird

Myndin fjallar um heimilislausan mann í London sem hefur ánetjast áfengi og dópi og ákveður að snúa við blaðinu eftir að hann verður fyrir hrottalegri líkamsárás.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan:

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að Hummingbird, eftir breska leikstjórann og handritshöfundinn Steven Knight, hafi hlotið afar góða dóma flestra þeirra sem séð hafa eins og vel megi sjá á umsögnum almennra áhorfenda á Imdb.com. „Ekki síst hefur leikur Jasons Statham verið lofaður í hástert, en hann þykir sýna hér að hann getur sannarlega meira en leikið þær harðhausatýpur sem hann hefur verið þekktastur fyrir í gegnum árin.“

plakatJoey er heimilislaus, fyrrverandi hermaður sem á að baki hroðalega reynslu frá dvöl sinni í Afganistan. Kvalinn á sálinni hefur hann hallað sér ótæpilega að áfengi og öðrum vímuefnum í myrkustu skúmaskotum Lundúna.

Kvöld eitt verður hann fyrir alvarlegri líkamsárás og á flóttanum kemst hann fyrir tilviljun inn í íbúð sterkefnaðs manns sem er að heiman. Í þessu sér Joey möguleika sem hann ákveður að nota til hins ítrasta og snúa við blaðinu…

 

Aðalhlutverk: Jason Statham, Agata Buzek, Vicky McClure, Benedict Wong, Ger Ryan, Youssef Kerkour og Anthony Morris

Leikstjórn: Steven Knight

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík

Aldurstakmark: 16 ára

Fróðleiksmoli til gamans: 

• Redemption er fyrsta bíómynd Stevens Knight sem leikstjóra, en hann hefur getið sér afar gott orð fyrir handritsgerð sína í gegnum árin og var m.a. tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir handrit hinnar mögnuðu myndar Dirty Pretty Things auk þess sem hann skrifaði verðlaunamyndirnar Eastern Promises og Amazing Grace. Þess má geta að Steven er nú að vinna að sinni næstu mynd sem leikstjóri, en hún heitir Locke og er strax orðin umtöluð vegna þess hversu gott handrit hennar þykir.