Frumsýning: Guardians of the Galaxy

guardiansGuardians of the Galaxy-teymið kom fyrst fyrir sjónir almennings í teiknimyndablaði sem Marvel gaf út í janúar árið 1969. Að vísu var ekki um sama teymi að ræða og í dag, en núverandi teymi sást fyrst í teiknimyndablaði frá Marvel í maí árið 2008.

Fimmtudaginn 31. júlí munu Sambíóin og Smárabíó frumsýna myndina, sem ber einfaldlega heitið Guardians of the Galaxy.

Það má segja að ofurhetjurnar sem þar eiga sviðið séu nokkurs konar geimútgáfur af The Avengers-ofurhetjunum. Þetta eru þau Peter Quill, öðru nafni Star-Lord, sem leiðir hópinn og er leikinn af Chris Pratt, hin græna Gamora sem Zoe Saldana leikur, drumburinn Groot sem leikinn er af Vin Diesel, Drax the Destroyer sem Dave Bautista leikur og hinn ofursvali Rocket sem Bradley Cooper leikur.

Í öðrum hlutverkum er heill her þekktra leikara og má þar nefna þau Glenn Close, Michael Rooker, Djimon Hounsou, John C. Reilly, Josh Brolin og Benicio del Toro.

Guardians of the Galaxy verður sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Kringlunni, Egilshöll, Akureyri og Keflavík, Smárabíói, Selfossbíói, Ísafjarðarbíói, Bíóhöllinni Akranesi og Króksbíói.