Frumsýning: Dead Man Down

Sambíóin frumsýna myndina Dead Man Down á föstudaginn næsta, þann 15. mars.

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að Dead Man Down sé nýjasta þrekvirki sænska leikstjórans, Niels Arden Oplev, sem færði okkur m.a. Karlar sem Hata Konur en þetta er frumraun hans í Hollywood og hans fyrsta mynd á ensku.
„Hér er á ferðinni alvöru hasarmynd með flottum leikurum og óvæntri atburðarás,“ segir í tilkynningunni.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér fyrir neðan:

Það eru þau Colin Farrell, Noomi Rapace, Dominic Cooper, Terrence Howard, Isabelle Huppert og Armand Assante sem fara með aðalhlutverkin í Dead Man Down sem er gerð eftir handriti J. H. Wymans (The Mexican).

Victor er morðingi sem starfar fyrir alræmdan glæpaforingja, Alphonse Hoyt, en á um leið harma að hefna fyrir dauða fjölskyldu sinnar. Í honum blundar sterk hefndarþrá sem hann ætlar sér að fá útrás fyrir þótt síðar verði.

Dag einn hittir hann Beatrice, nágranna sinn, og í ljós kemur að hún hefur verið að fylgjast með honum og veit hvað hann gerir. Því til sönnunar sýnir hún honum upptöku af því þegar Victor myrðir eitt af fórnarlömbum sínum með köldu blóði.

En Beatrice hefur ekki í hyggju að koma upp um Victor heldur þvinga hann til að hjálpa sér að hefna sinna eigin harma, en um þá ber hún skýr merki. Á sama tíma dragast þau hvort að öðru einsog segull að stáli og úr verður eldfim blanda ástar, haturs og hefnda sem getur ekki endað öðruvísi en með uppgjöri…

Aðalhlutverk: Colin Farrell, Noomi Rapace, Dominic Cooper, Terrence Howard, Isabelle Huppert og Armand Assante

Leikstjórn: Niels Arden Oplev

Sýningarstaðir: Sambíóin Egilshöll, Álfabakka, Kringlunni, Akureyri og Keflavík, Króksbíó, Bíóhöllin Akranesi og Ísafjarðarbíó

Aldurstakmark: 16 ára

Fróðleiksmoli til gamans:

• Tónlistin í myndinni hefur vakið mikla athygli en hún er eftir Jacob Groth sem samdi m.a. tónlistina við Milleniumþríleikinn. Í þrælgóðri stiklu myndarinnar sem við hvetjum alla til að skoða gefur ennfremur að heyra magnaða útgáfu af laginu Shine on You Crazy Diamond í flutningi Kendru Morris.