Topp 100 kvikmyndaáhugamanns: Ógleymanlegt bíó

Að velja og raða upp hundrað uppáhalds kvikmyndum er bæði krefjandi og gefandi verkefni. Hver kvikmynd á sér sína eigin sál, tíma og merkingu. Þessi listi er afrakstur margra ára áhorfs, ígrundunar og endurmats á því hvað bíó getur verið sem listform og upplifun, og sem spegill mannlegrar tilveru og ímyndunarafls.

Hér birtast sígildar kvikmyndir, stórmyndir, költperlur og faldir gimsteinar sem eiga það sameiginlegt að hafa skilið eftir sig djúp spor, bæði í kvikmyndasögunni og í mér sem áhorfanda. Þetta er ekki tæmandi yfirlit yfir „bestu“ kvikmyndir allra tíma, heldur heiðarleg tilraun til að draga fram þær myndir sem fanga þá ómælanlegu töfra sem gefa kvikmyndum sál, sérstöðu og gæðastimpil, og sem á sama tíma hafa talað sérstaklega til mín persónulega.

Auðvitað eru óteljandi kvikmyndir til viðbótar sem hefðu getað ratað á listann, en þessar eiga það sameiginlegt að hafa orðið mér innblástur á einhvern hátt og mótað mig sem áhorfanda og kvikmyndaáhugamann.

100. The Last Samurai (2003)

The Last Samurai eftir Edward Zwick segir frá bandaríska herforingjanum Nathan Algren (Tom Cruise), sem er sendur til Japans á síðari hluta 19. aldar til að þjálfa nýjan her keisarans í nútíma hernaði. Algren er tekinn til fanga af samúræjunum sem hann átti að uppræta og kynnist heimspeki, lífsháttum og lífssýn þeirra. Tónlistin eftir Hans Zimmer er stórkostleg og The Last Samurai er sannkallað meistaraverk um heiður, sjálfsleit og umbreytingu.

99. The Mask of Zorro (1998)

The Mask of Zorro er frumsamin saga sem endurvakti hinn sígilda Zorro-karakter og anda goðsagnarinnar. Anthony Hopkins fer með hlutverk Don Diego de la Vega, hetjunnar á bak við grímuna, sem finnur sér arftaka í unga ræningjanum Alejandro Murrieta (Antonio Banderas) og þjálfar hann til að taka við keflinu sem Zorro. Myndin er hressileg endursögn á goðsögninni, full af sjarma og spennu, með frábærum leik, töfrandi tónlist James Horner og litríkum hasar- og áhættuatriðum sem gera hana að ógleymanlegu ævintýri.

98. The Count of Monte Cristo (2002)

The Count of Monte Cristo (2002) er ævintýra- og hefndardrama byggt á klassískri skáldsögu Alexandre Dumas. Hún segir frá Edmond Dantès (Jim Caviezel), sjómanni sem er svikinn af besta vini sínum og fangelsaður í klefa á Château d’If.
Eftir mörg ár í einangrun tekst honum að flýja, afla sér mikilla auðæfa og snúa aftur undir dulnefninu greifinn af Monte Cristo.

97. All Dogs Go to Heaven (1989)

All Dogs Go to Heaven segir frá Charlie, hundi sem afsalar sér plássi sínu á himnum og snýr aftur til jarðar til að hefna sín á gömlum fjandmanni. Á leiðinni kynnist hann lítilli munaðarlausri stúlku sem opnar fyrir honum heim vináttu, ástar og fórnfýsi. Myndin einkennist af litríkum og auðþekkjanlegum teiknistíl Don Bluth.

96. Around the World in 80 Days (1956)

Around the World in 80 Days er byggð á klassískri sögu Jules Verne og segir frá Phileas Fogg (David Niven) sem gerir veðmál um að hann geti ferðast um allan heim á aðeins áttatíu dögum. Með sér hefur hann þjóninn Passepartout (Cantinflas), og saman takast þeir á við fjölbreyttar áskoranir á ferðalagi í kringum heiminn.

95. Hook (1991)

Steven Spielberg setur nýjan snúning á ævintýrið um Peter Pan. Robin Williams leikur hinn fullorðna Peter sem neyðist til að snúa aftur til Neverland þegar börnum Captain Hook (Dustin Hoffman) rænir börnunum hans. Myndin stendur upp úr fyrir ógleymanlegt tónverk John Williams og sterka túlkun Hoffmans.

94. Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl (2003)

Johnny Depp skapar tímalausan karakter með túlkun sinni á Jack Sparrow, þar sem sjarmi, sérviska og húmor sameinast í einum eftirminnilegasta sjóræningja kvikmyndasögunnar. Myndin er full af ævintýrum, hasar og litríkum persónum, með sjóorrustum og snjöllum samtölum sem halda áhorfandanum föngnum frá upphafi til enda. Tónlistin varð strax klassík og setti svip sinn á alla seríuna.

93. Smoke (1995)

Harvey Keitel og William Hurt leiða þessa hlýju og mannlegu sögu sem snýst um líf fólks í kringum litla tóbaksbúð í Brooklyn. Myndin er róleg en áhrifarík, full af smásögum, húmor og tilviljunum sem sýna hvernig örlög fólks fléttast saman. Smoke er einföld í framsetningu en djúp í innihaldi og hefur öðlast sess sem sönn költperla.

92. Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004)

Jim Carrey og Kate Winslet fara á kostum í þessari einstöku blöndu af rómantík og vísindaskáldskap. Þegar par ákveður að láta eyða minningunum af sambandinu, uppgötvar það að ástin hverfur ekki svona auðveldlega. Eternal Sunshine of the Spotless Mind fangar hið flókna eðli ástarinnar og sýnir hvernig hún getur lifað áfram í undirmeðvitundinni.

91. Fantasia (1940)

Eitt metnaðarfyllsta verk Disney, þar sem klassísk tónlist og sígild teiknimyndalist sameinast í töfrandi sjónarspili. Frægasti hluti myndarinnar er trúlega kaflinn með Mikka mús sem lærlingi galdramannsins, en í heild sinni er hún einstakt verk sem einkennist af hugmyndaauðgi og sköpunarkrafti sem hefur gert hana að tímalausri kvikmyndaperlu.

90. Birdman (2014)

Alejandro G. Iñárritu leikstýrir þessari óvenjulegu og sjónrænt heillandi mynd um fyrrum kvikmyndastjörnu (Michael Keaton) sem reynir að endurheimta virðingu sína á Broadway. Myndin er þekkt fyrir einstaka kvikmyndatöku Emmanuel Lubezki, sem líkir eftir einni samfelldri töku, og sameinar svartan húmor, leiklistardrama og innri togstreitu. Birdman er djörf og skapandi kvikmynd sem heldur áhorfandanum föngnum frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu.

89. Mud (2012)

Matthew McConaughey fer á kostum sem Mud, maður á flótta sem tveir drengir rekast á á lítilli eyju við Mississippi. Þeir ákveða að hjálpa honum, og smám saman myndast tengsl sem leiða þá inn í hættulegar og óvæntar aðstæður. Mud fangar sterkt andrúmsloft suðurríkja Bandaríkjanna og sýnir McConaughey í einni bestu frammistöðu ferilsins.

88. Zombieland (2009)

Woody Harrelson, Jesse Eisenberg, Emma Stone og Abigail Breslin mynda óvenjulegt teymi sem reynir að lifa af í heimi sem er orðinn yfirfullur af uppvakningum. Myndin er full af hasar og húmor, með frumlegum atriðum og bráðskemmtilegum karakterum sem halda henni gangandi frá upphafi til enda. Zombieland er virkilega fyndin, hrá með frábært handrit og ein skemmtilegasta uppvakningamynd samtímans.

87. Willow (1988)

George Lucas átti hugmyndina að þessari ævintýramynd sem Ron Howard leikstýrir. Hún segir frá dverg-bóndanum Willow (Warwick Davis) sem finnur yfirgefna stúlku sem er spáð að muni fella hina illu drottningu Bavmordu. Með hjálp riddarans Madmartigan (Val Kilmer) leggur hann upp í ferðalag til að vernda barnið fyrir drottningunni, ferðalag fullt af göldrum, hættum og ævintýrum.

86. Blinkende Lygter (2000)

Fjórir smáglæpamenn stela fé af mafíunni og flýja borgina. Þegar bíllinn bilar enda þeir í yfirgefnum sveitabæ þar sem þeir reyna að fela sig, en finna jafnframt nýja merkingu í lífinu. Blinkende Lygter er myrk og fyndin saga, með ógleymanlegum persónum og dönskum húmor sem hefur gert hana að algjörri költklassík.

85. Interview with the Vampire (1994)

Tom Cruise og Brad Pitt fara með hlutverk vampíranna Lestat og Louis í þessari dimmu aðlögun skáldsögu Anne Rice. Sagan spannar aldir þar sem Louis segir frá lífi sínu sem vampíra, tengslunum við Lestat og innri baráttunni sem fylgir eilífu lífi.

84. Titanic (1997)

Titanic er ein frægasta stórmynd allra tíma. James Cameron segir ástarsögu Jack (Leonardo DiCaprio) og Rose (Kate Winslet) um borð í hinu sögufræga skipi Titanic, og gerist mitt í harmleiknum þegar skipið sekkur. Myndin er bæði stórbrotið sjónarspil og spennuþrungin saga sem hefur heillað milljónir áhorfenda um allan heim.

83. Legends of the Fall (1994)

Legends of the Fall segir frá þremur bræðrum og föður þeirra sem búa á afskekktri bújörð í Montana snemma á 20. öld. Þegar bræðurnir verða ástfangnir af sömu konu breytist líf þeirra til frambúðar og fjölskyldan sundrast í kjölfar ástar, stríðs og svika. Myndin stendur upp úr sem áhrifamikið fjölskyldudrama með guðdómlegri tónlist frá James Horner.

82. Apocalypto (2006)

Mel Gibson leikstýrir þessari stórbrotnu gríðarlega kraftmiklu mynd sem gerist á síðustu dögum Maya-menningarinnar. Hún segir frá unga veiðimanninum Jaguar Paw sem þarf að flýja eftir að þorp hans er eyðilagt og hann tekinn til fanga. Apocalypto er áhrifamikil og hrá kvikmynd um baráttu mannsins fyrir lífi sínu, með mögnuðu sjónarspili og stöðugri spennu frá upphafi til enda.

81. Beauty and the Beast (1991)

Ein ástsælasta teiknimynd Disney. Belle, ung kona úr smábæ, er tekin til fanga í höll ófreskjunnar. Smám saman uppgötvar hún að baki hrjúfu yfirbragði dýrsins leynist góðmennska og ást. Beauty and the Beast er sígilt ævintýri með fallegri tónlist og eftirminnilegum persónum. Hún var jafnframt fyrsta teiknimyndin sem hlaut tilnefningu til Óskarsverðlauna sem besta mynd.

80. The Land Before Time (1988)

Steven Spielberg og Don Bluth sameinuðu krafta sína í þessu stórkostlega meistaraverki sem hefur heillað kynslóðir. Hún segir frá ungu risaeðlunni Littlefoot sem leggur upp í ferðalag eftir að heimur hennar er lagður í rúst. Á leiðinni hittir hún aðrar týndar risaeðlur og saman leita þau að hinum Mikla Dal, staðnum sem aðeins hjartað segir að sé til. The Land Before Time er tímalaus saga um vináttu, þrautsegju og von, studd af snilldarlegri tónlist James Horner.

79. Das Boot (1981)

Wolfgang Petersen leikstýrir þessari áhrifamiklu og klaustrofóbísku stríðsmynd sem gerist um borð í þýskum kafbát á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Myndin fangar ekki hetjudáð né glæsileika stríðsins, heldur angist, einangrun og stöðuga ógn dauðans sem fylgir lífi áhafnarinnar neðansjávar.
Das Boot er bæði spennutryllir og sálfræðilegt drama, með magnaðri kvikmyndatöku sem dregur áhorfandann inn í þröngt og kæfandi rými kafbátsins. Hún er talin ein áhrifamesta stríðsmynd kvikmyndasögunnar og stendur sem ógleymanlegt kvikmyndaverk.

78. Clerks (1994)

Leikstjórinn Kevin Smith sló í gegn með sinni fyrstu kvikmynd, gerð fyrir litla fjármuni en með miklum sköpunarkrafti. Myndin fylgir tveimur afgreiðslumönnum, Dante og Randal, sem verja deginum í kaldhæðnislegum samræðum, erjum við viðskiptavini og endalausum vangaveltum um lífið. Clerks er hrá, fyndin og óvenjuleg kvikmynd sem fangar anda sjálfstæðrar kvikmyndagerðar tíunda áratugarins. Hún sýnir að stundum nægir snjallt handrit og sterkir karakterar til að skapa sannkallaða költ klassík.

77. Seven Psychopaths (2012)

Martin McDonagh leikstýrir þessari svörtu kómedíu sem blandar saman húmor, ofbeldi og sjálfsmeðvitaða frásögn um kvikmyndagerð. Colin Farrell leikur handritshöfund sem flækist inn í glæpahring eftir að vinir hans (Sam Rockwell og Christopher Walken) stela hundi sem tilheyrir hættulegum mafíósa (Woody Harrelson).
Seven Psychopaths er bæði fyndin og grimm, full af beittum samtölum, óvæntum uppákomum og snjallri leikstjórn.

76. Casablanca (1942)

Casablanca gerist í Marokkó á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og segir frá Rick Blaine (Humphrey Bogart), barþjóni sem á óvæntan endurfund með fyrrverandi ástkonu sinni Ilsu (Ingrid Bergman). Myndin sameinar ást, fórn og skyldu í einni áhrifamestu klassísku kvikmynd sögunnar.

75. Saw (2004)

James Wan leikstýrir þessum dimma og óhugnanlega lögregluþriller sem markaði nýja stefnu í hrollvekjum. Grundvallarhugmynd sögunnar byrjar á því að tveir einstaklingar sem þekkjast ekki vakna í yfirgefnu baðherbergi, hlekkjaðir við veggi og með dularfullar leiðbeiningar frá manni sem kallar sig Jigsaw. Til að lifa af neyðast þeir til að taka ógnvekjandi ákvarðanir sem reyna bæði á siðferði þeirra og lífsvilja. Saw var gerð fyrir tiltölulega lítinn pening en tókst engu að síður að skapa frumlegt og áhrifaríkt meistaraverk.

74. Deliverance (1972)

John Boorman leikstýrir þessari mögnuðu spennumynd sem hefur orðið tímalaus klassík í kvikmyndasögunni. Fjögurra manna hópur fer í kanóferð inn í óbyggðir Georgíu, en ferðalagið breytist í martröð þegar þeir mæta fjandsamlegum innfæddum mönnum og neyðast til að berjast fyrir lífi sínu. Deliverance er hrá og óþægileg kvikmynd sem fangar bæði ógnvænlega fegurð náttúrunnar og myrka hliðar mannlegrar tilveru. Hún er þekkt fyrir eftirminnilegar senur, þar á meðal banjóeinvígið, og hefur markað djúp spor í kvikmyndasöguna.

73. True Grit (2010)

Coen-bræðurnir endurgera hér sígilda vestramynd og leggja áherslu á grimman raunveruleika frekar en rómantík gamla vestursins. Sagan segir frá ungu stúlkunni Mattie Ross (Hailee Steinfeld) sem ræður hinn harðneskjulega lögreglufulltrúa Rooster Cogburn (Jeff Bridges) til að elta manninn sem myrti föður hennar. Myndin einkennist af stórkostlegum leik og gullfallegri kvikmyndatöku, en ekki síður eftirminnilegri tónlist Carter Burwell, sem samdi eitt af sínum meistaraverkum í anda klassískrar vestra kvikmyndatónlistar.

72. A History of Violence (2005)

David Cronenberg leikstýrir þessu stórgóða verki sem byggir á samnefndri myndasögu. Viggo Mortensen leikur Tom Stall, friðsaman fjölskyldumann í litlum bæ sem verður hetja eftir að stöðva vopnað rán á kaffihúsi sínu. Athygli fjölmiðla vekur hins vegar upp spurningar um fortíð hans og brátt kemur í ljós að Tom á sér leyndarmál sem getur sett bæði hann og fjölskyldu hans í hættu.
Myndin er beitt og áhrifamikil stúdía á ofbeldi, fortíðardraugum og sjálfsmynd, og ein sú besta frá Cronenberg.

71. The Social Network (2010)

Myndin segir frá stofnun Facebook og árekstrunum sem fylgdu henni. Mark Zuckerberg (Jesse Eisenberg) tekst á við metnað, vináttu og völd þegar hann byggir upp stærsta samfélagsmiðil heims. Leikstjórn David Fincher og handrit Aarons Sorkin skapa beitta, hraða og skýra mynd af tímamótum í samskiptum og tækni.

70. Amadeus (1984)

Amadeus segir frá Wolfgang Amadeus Mozart, aðallega séð út frá sjónarhorni Antonio Salieri í Vínarborg á 18. öld. Myndin sýnir hvernig snilligáfa Mozarts verður bæði uppspretta aðdáunar og öfundar hjá Salieri. Leikstjórn Miloš Forman og tónlist Mozarts gera myndina að stórbrotnu og dramatísku verki um það hvernig guðsgjafir geta orðið mönnum ofviða.

69. Apollo 13 (1995)

Byggð á sönnum atburðum um geimferðina sem „næstum“ fór úrskeiðis. Þegar sprenging verður í einum súrefniskútnum um borð fer súrefni og orka að leka úr kerfinu, og áhöfnin þarf að glíma við lífshættulegar aðstæður. Á jörðinni vinna verkfræðingar í kappi við tímann til að koma geimförunum lifandi heim. Ron Howard leikstýrir af raunsæi og spennu, og Tom Hanks leiðir sterkan leikhóp í þessari áhrifamiklu mynd um hugrekki, útsjónarsemi og samstöðu.

68. Batman (1989)

Tim Burton endurskapaði goðsögnina um Batman með dimmri og stílfærðri útgáfu sem markaði upphaf nýrrar kynslóðar ofurhetjumynda. Michael Keaton fer með hlutverk Batman, en Jack Nicholson stelur senunni sem Joker. Myndin sameinar gotneska stemningu, áhrifamikla tónlist Danny Elfman og sterka sjónræna sýn sem skilgreindi Batman á ný fyrir hvíta tjaldið.

67. Rear Window (1954)

Alfred Hitchcock leikstýrir þessari spennumynd sem gerist að mestu innan einnar íbúðar. James Stewart leikur ljósmyndara sem situr fótbrotinn í hjólastól og fylgist með nágrönnum sínum út um gluggann. Þegar hann grunar að morð hafi verið framið fer hann að grafa dýpra og flækist smám saman inn í málið sjálft. Rear Window byggir á einfaldri en snilldarlega útfærðri hugmynd og handriti og sýnir Hitchcock á toppi ferilsins.

66. Le fabuleux destin d’Amélie Poulain (2001)

Amélie er litrík og heillandi saga um unga konu í París sem sér fegurðina í smæstu hlutum. Audrey Tautou fer með hlutverk stúlku sem ákveður að tileinka líf sitt því að gleðja aðra, allt á sinn dularfulla og barnslega hátt. Myndin fangar fegurð hins hversdagslega með óviðjafnanlegum stíl leikstjórans Jean-Pierre Jeunet, þar sem litir, frábær tónlist og smáatriði skapa töfrandi kvikmyndaheim sem hefur staðist tímans tönn.

65. Training Day (2001)

Denzel Washington brillerar sem spillti lögreglumaðurinn Alonzo Harris, sem tekur nýliðann Jake Hoyt (Ethan Hawke) með sér í fyrsta vaktardaginn. Eftir því sem dagurinn líður kemur sífellt betur í ljós hve óvenjulegu aðferðir Harris í starfi eru. Myndin er hrá, spennandi og vel leikin, með eftirminnilegri frammistöðu Washington sem færði honum Óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki.

64. Snatch (2000)

Guy Ritchie leikstýrir þessari hraðskreiðu og stílfærðu glæpamynd þar sem vegir ólíkra karaktera mætast í heimi ólöglegra hnefaleika og stolinna demanta. Jason Statham, Brad Pitt, Stephen Graham, Vinnie Jones og Benicio Del Toro leiða stóran leikhóp í mynd sem sameinar svartan húmor, beitt samtöl og hraða klippingu sem heldur ótrúlegum takti frá upphafi til enda. Snatch er orkumikil og snjöll glæpamynd sem varð fljótt að sannri költklassík.

63. Into the Wild (2007)

Sean Penn leikstýrir þessu meistaraverki, byggð á sannsögulegum atburðum, um Christopher McCandless (Emile Hirsch), ungan mann sem yfirgefur samfélagið og leggur upp í ferðalag inn í óbyggðir Alaska. Myndin fjallar um leit að frelsi, merkingu og sjálfsþekkingu, og fangar bæði fegurð náttúrunnar og einmanaleika hennar. Tónlist Eddie Vedder og myndataka Eric Gautier gera Into the Wild að áhrifamikilli og fallegri kvikmynd um uppreisn, kærleika, frelsi og innri frið.

62. The Gentlemen (2019)

Guy Ritchie snýr aftur með sína bestu mynd eftir langa bið, hraðskeytta og öfluga glæpamynd úr breskum undirheimum, þar sem hann er á heimavelli. Matthew McConaughey fer með hlutverk maríjúanukóngsins Mickey Pearson, sem ætlar að selja veldi sitt, en út frá því hefst leikur svika og blekkinga. The Gentlemen sameinar þétt handrit, hraðan takt, frábæra leikara og þann sérstaka húmor sem gerði fyrri myndir Ritchie á borð við Lock, Stock and Two Smoking Barrels og Snatch svo góðar.

61. Nightcrawler (2014)

Jake Gyllenhaal fer á kostum í hlutverki Lou Bloom, metnaðarfulls en siðblinds manns sem uppgötvar að hann getur grætt á því að taka upp myndefni af slysum og glæpum í Los Angeles. Smám saman fer hann að hafa bein áhrif á atburðarásina sjálfa og jafnvel að hrinda af stað slysum og hörmungum bara til að vera fyrstur á vettvang og öðlast samkeppnisforskot. Myndin sýnir hversu brenglaður fjölmiðlaheimurinn getur orðið þegar allt snýst um myndefnið sem selur. Nightcrawler er dimm, spennandi og málar upp óþægilega raunveruleg mynd um græðgi og siðblindu í nútímasamfélagi.

60. Frequency (2000)

John Sullivan (Jim Caviezel) kemst í samband við látinn föður sinn, Frank (Dennis Quaid), í gegnum gamalt útvarpstæki sem tengir saman fortíð og nútíð. Með því að vara hann við eldsvoða tekst honum að bjarga lífi hans, en það skapar þannig nýja tímalínu þar sem móðir John Sullivans verður fórnarlamb raðmorðingjans The Nightingale. Feðgarnir þurfa í sameiningu að finna leið til að bjarga lífi móðurinnar og stöðva morðingjann.

59. Hereditary (2018)

Ari Aster leikstýrir þessari óhugnanlegu og áhrifamiklu hrollvekju sem fjallar um fjölskyldu sem tekst á við sorg, leyndarmál og myrk öfl sem fara að herja á heimilið á dulafullan hátt. Toni Collette fer með hlutverk móður sem byrjar að missa tökin á raunveruleikanum eftir dauða móður sinnar. Hereditary er hægfara martröð sem byggir upp spennu og sálfræðilegan hrylling á öðru leveli og er ein mest umtalaða hrollvekja síðari ára.

58. Cast Away (2000)

Tom Hanks fer með hlutverk Chuck Noland, starfsmanns hjá póstfyrirtækinu FedEx sem lendir á eyðieyju eftir flugslys. Þar þarf hann að læra að lifa af með takmörkuðum tólum og engum öðrum félaga en blakboltanum Wilson. Myndin fjallar um einangrun, von og innri styrk mannsins þegar allt annað er tekið frá honum. Cast Away er einföld en áhrifamikil saga með einni sterkustu frammistöðu á ferli Hanks.

57. Indiana Jones and the Last Crusade (1989)

Steven Spielberg leikstýrir þriðju myndinni um fornleifafræðinginn Indiana Jones, þar sem Harrison Ford snýr aftur í sínu þekktasta hlutverki. Að þessu sinni leggur hann upp í ævintýralega leit að hinum heilaga gral ásamt föður sínum, prófessor Henry Jones, sem leikinn er af Sean Connery. The Last Crusade sameinar spennu, hasar, gamansemi og hina einstöku Spielberg-töfra í einni bestu ævintýramynd kvikmyndasögunnar.

56. The Hateful Eight (2015)

Quentin Tarantino býr til kröftugan vestra sem gerist í óveðri að vetri til í Wyoming, skömmu eftir borgarastyrjöldina. Þar leita átta ólíkir einstaklingar skjóls í litlu gistihúsi, en spennan eykst þegar leyndarmál og lygar koma smám saman í ljós. Myndin er löng, samtalsdrifin og full af sívaxandi óhugnaði, með framúrskarandi leik frá Samuel L. Jackson, Kurt Russell og Jennifer Jason Leigh, og ekki síst Walton Goggins, sem sýnir hér meistaraleik par excellence. The Hateful Eight er stílfærð, hægfara sprengja af spennu, splatter og svörtum húmor.

55. The Lion King (1994)

Stærsta teiknimynd Disney hlýtur að vera The Lion King, þar sem sagan um Simba tekur á sig ævintýralega, harmræna og frelsandi mynd. Eftir dauða föður síns, Múfasa, þarf Simba að finna sjálfan sig og axla ábyrgð sem réttmætur konungur. Myndin sameinar stórbrotna tónlist eftir Elton John og Hans Zimmer, glæsilega teiknimyndatækni og söguna um lífsins hring, frásögn sem hefur snert hjörtu kynslóða um allan heim.

54. Mary Poppins (1964)

Julie Andrews fer með hlutverk hinnar dularfullu barnfóstru Mary Poppins sem svífur niður úr himninum til að koma reglu og gleði á líf Banks-fjölskyldunnar í Lundúnum. Með blöndu af göldrum, tónlist og hlýju kennir hún börnunum ábyrgð og gefur föður þeirra innblástur til að opna hjarta sitt. Mary Poppins er sígild kvikmynd með mikla dýpt og boðskap sem skoðar mikilvægi leiks, nándar og andlegrar nærveru innan fjölskyldunnar.

53. The Sunset Limited (2011)

Tommy Lee Jones leikstýrir og leikur ásamt Samuel L. Jackson í þessari kraftmiklu kvikmynd byggð á leikriti eftir Cormac McCarthy. Sagan gerist öll í einni íbúð þar sem tveir menn, trúaður fyrrverandi fangi og trúlaus prófessor, ræða um lífið, Guð og tilgang mannsins eftir misheppnaða sjálfsvígstilraun. The Sunset Limited er einföld í framsetningu en ótrúlega öflug og varpar ljósi á eilífa togstreitu milli trúar og örvæntingar, vonar og uppgjafar. Leikurinn er stórkostlegur hjá báðum þessum þungavigtaleikurum.

52. The Fisher King (1991)

Terry Gilliam leikstýrir þessu frumlega meistaraverki sem fjallar um djúpa sektarkennd, fyrirgefningu og von. Jeff Bridges leikur útvarpsmann sem hefur glatað tilgangi sínum eftir hörmulegan atburð, en kynnist heimilislausa manninum Parry (Robin Williams) sem lifir í eigin ævintýraheimi og leitar hins goðsagnakennda Fisher King. The Fisher King sameinar afburðaleik um hreina og óvænta vináttu, einstakan stíl Gilliam og boðskap sem varpar ljósi á hversu mikið kraftaverk mannsandinn getur verið.

51. Le Roi et l’Oiseau (The King and the Mockingbird) (1980)

Frönsk teiknimynd eftir Paul Grimault og Jacques Prévert sem varð tímamótaverk í sögu evrópskrar teiknimyndagerðar. Myndin segir frá konungi sem þráir hirðmey, en hún elskar sótara. Erkióvinur konungsins, háðslegur fugl, er sögumaðurinn sem hjálpar unga ástfangna parinu að flýja konungsríkið og hæðast að konungnum í leiðinni. Le Roi et l’Oiseau er ljóðræn, sjónrænt stórkostleg og full af djúpum táknum um frelsi, vald og ímyndunarafl mannsins. Tónlistin er stórkostlegt meistaraverk sem fangar fullkomlega bæði ljóðræna fegurð og ævintýraanda myndarinnar.

50. Blood Diamond (2006)

Blood Diamond er kraftmikil og átakanleg mynd sem gerist í Sierra Leone á tíunda áratugnum, þegar blóðdemantar voru notaðir til að fjármagna borgarastyrjöld. Leonardo DiCaprio leikur samningamann sem flækist inn í sögu fjölskylduföður (Djimon Hounsou) sem leitar sonar síns, og saman reyna þeir að finna demant sem gæti breytt örlögum þeirra.

49. The Grand Budapest Hotel (2014)

Wes Anderson leikstýrir þessari litríkri og fallegu mynd um hótelstjórann Gustave H (Ralph Fiennes), sem flækist inn í morðmál og ágreining í ímynduðu Evrópuríki á fjórða áratugnum. Með sér hefur hann unga aðstoðarmanninn Zero, og saman fara þeir í óvænt og ævintýralegt ferðalag. The Grand Budapest Hotel er virkilega fyndin, glæsilega stílfærð og hápunktur á ferli Andersons.

48. Trainspotting (1996)

Danny Boyle leikstýrir þessari hráu, kraftmiklu og áhrifamiklu mynd um hóp ungra eiturlyfjaneytenda í Edinborg. Ewan McGregor fer með hlutverk Renton, sem reynir að slíta sig frá vítahring fíknarinnar og finna merkingu í lífinu. Trainspotting sameinar svartan húmor, frábæra tónlist og brautryðjandi myndatöku sem gerði hana að einni áhrifamestu bresku kvikmynd tíunda áratugarins.

47. Pan’s Labyrinth (2006)

Guillermo del Toro sýnir meistaratakta með þessari myrku og fallegu ævintýramynd. Hún gerist á Spáni árið 1944 þar sem Ofelia, ung stúlka sem flytur með móður sinni til stjúpföður síns, grimms herforingja í þjónustu Francó-stjórnarinnar, flýr inn í dularfullan undirheim fullan af skrímslum og táknum. Pan’s Labyrinth sameinar dramatík og fantasíu á áhrifamikinn hátt, með ógleymanlegri tónlist Javier Navarrete og myndrænni fegurð sem gerir hana að einni mögnuðustu kvikmynd 21. aldarinnar.

46. Prisoners (2013)

Prisoners er dimmur og áhrifamikill lögreglutryllir sem er dýpri en flestar myndir í sínum flokki. Þegar sex ára stúlka hverfur sporlaust tekur faðir hennar, leikinn af Hugh Jackman, málin í eigin hendur á meðan lögreglumaður (Jake Gyllenhaal) reynir að finna sannleikann. Prisoners vekur upp siðferðilegar spurningar um réttlætingu ofbeldis og er kraftmikil saga um örvæntingu, siðferði og réttlæti, með frábærum leik og mögnuðu andrúmslofti sem heldur áhorfandanum í heljargreipum frá upphafi til enda. Myndir á borð við Zodiac og Se7en eftir David Fincher eru einnig frábær dæmi um sálfræðitrylli af svipuðum meiði og eiga sannarlega skilið honorable mention.

45. Lincoln (2012)

Steven Spielberg leikstýrir þessari áhrifamiklu sögulegu mynd um lokadaga Abrahams Lincoln Bandaríkjaforseta og baráttu hans fyrir afnámi þrælahalds í landinu. Daniel Day-Lewis fer með hlutverk forsetans af ótrúlegri nákvæmni og innsæi og sýnir manninn á bak við goðsögnina. Lincoln er sterk og áhrifamikil kvikmynd um sannfæringu, siðferði og leiðtogahæfni, með stórkostlegum leik, vönduðu handriti og glæsilegri kvikmyndatöku.


44. The Wolf of Wall Street (2013)

Martin Scorsese leikstýrir þessari háværu, fyndnu og ögrandi mynd sem byggð er á ævi hlutabréfamiðlarans Jordan Belfort. Leonardo DiCaprio fer á kostum í hlutverki manns sem græðgi og óhóf í heimi Wall Street verða sér að falli. Myndin er litrík áfallasaga, með bráðfyndnu handriti, mögnuðu flæði og orku sem minnir á Scorsese á hátindi ferilsins. The Wolf of Wall Street er brjálæðislega kraftmikil og um leið beitt gagnrýni á menningu peningadýrkunar og spillingar.

43. La Haine (1995)

La Haine er hrá og áhrifamikil frönsk kvikmynd sem fylgir þremur ungum mönnum í úthverfi Parísar daginn eftir ofbeldisfull mótmæli. Myndin er í svart-hvítu og fangar andrúmsloft úthverfa tíunda áratugarins með glæsibragði og raunsæi. La Haine er sterk og tímalaus ádeila á stéttaskiptingu og samfélagslegan óróa, en einnig heimspekileg í eðli sínu, og stendur enn sem ein áhrifamesta evrópska kvikmynd tíunda áratugarins.

42. The Big Lebowski (1998)

Coen-bræðurnir leikstýra þessum gimsteini sem varð strax að költkómedíu. Jeff Bridges leikur Jeffrey Lebowski, betur þekktan sem The Dude, sem lendir óvænt í ruglingslegu glæpamáli eftir að hann er ranglega talinn vera auðmaður sem ber sama nafn. Myndin sameinar sérkennilegar persónur, snjöll samtöl og húmor í tímalausri kvikmynd sem eldist eins og gott rauðvín.

41. Empire Strikes Back (1980)

The Empire Strikes Back eftir Irvin Kershner er myndin sem mótaði Star Wars sem menningarlegt fyrirbæri og eitt af mikilvægustu kvikmyndaverkum tuttugustu aldar. Hún dýpkar karaktersköpunina og eykur dramatíska spennu í sögunni, sem gerir heiminn enn goðsagnakenndari. Luke Skywalker tekst á við innri togstreitu og ábyrgð á meðan Han Solo og Leia gefa sögunni rómantískan blæ og meiri tilfinningadýpt.
Kvikmyndatakan, leikstjórnin og tónlist John Williams ná hér fullkomnu jafnvægi milli myrkurs og ljóss, stórfengleika og nákvæmni. The Empire Strikes Back er metnaðarfull framhaldssaga sem setti ný viðmið í sögugerð, tónlist og sjónræna tjáningu innan kvikmyndagerðar.

40. Kill Bill (The Whole Bloody Affair) (2003/2004)

Quentin Tarantino sameinar austurlenska bardagalist, spaghettívestra og goðsagnakennda glæpasögu í þessu epíska hefndarævintýri. Uma Thurman fer með hlutverk „The Bride“, leigumorðingja sem vaknar úr dái og sver að hefna sín á þeim sem sviku hana. Kill Bill er sjónrænt stórbrotin, stílfærð og full af orku, með ógleymanlegri tónlist, sturluðum bardögum og einstakri blöndu af ofbeldi og ljóðrænni og sjónrænni fegurð sem aðeins Tarantino gat skapað.

39. Back to the Future (1985)

Marty McFly (Michael J. Fox) ferðast aftur í tímann með uppfinningu vinar síns, Dr. Brown (Christopher Lloyd), breytir óvart örlögum foreldra sinna og þarf því að tryggja að þau kynnist uppá nýtt, annars hverfur hann sjálfur úr tilverunni. Back to the Future sameinar vísindaskáldskap og frumlegt ævintýri með fullkomnu handriti og hefur staðist tímans tönn sem ein frægasta og skemmtilegasta kvikmynd níunda áratugarins.

38. Indiana Jones and the Temple of Doom (1984)

Steven Spielberg heldur áfram ævintýrunum með hinum fræga fornleifafræðingi Indiana Jones (Harrison Ford) í annarri mynd seríunnar. Hér lendir hann í Indlandi þar sem hann tekst á við blóðugan trúarlega sértrúarsöfnuð og leit að helgum steinum. Myndin er dimmari en forverinn, full af trylltum hasaratriðum, húmor og klassískum Indiana Jones anda. „Fortune and glory, kid, fortune and glory.“

37. The Patriot (2000)

Mel Gibson fer með hlutverk Benjamin Martin, fyrrverandi hermanns sem reynir að lifa friðsælu lífi með fjölskyldu sinni en neyðist til að taka upp vopn á ný þegar bandaríska frelsisstríðið brýst út. Myndin dregur upp mann sem á sér dimma fortíð en finnur nýjan og göfugan tilgang í baráttu fyrir ástvinum sínum, fjölskyldu og frelsi. The Patriot er stór söguleg mynd um hugrekki, fórn og föðurlandsást, með stórkostlegri tónlist eftir John Williams.

36. There Will Be Blood (2007)

There Will Be Blood er stórbrotið og magnað meistaraverk eftir Paul Thomas Anderson um metnað, græðgi og trú. Daniel Day-Lewis fer með hlutverk olíufræðingsins Daniel Plainview sem byggir upp eigið veldi í upphafi 20. aldar. Myndin inniheldur eina mögnuðustu frammistöðu ferils Day-Lewis og ógleymanlega tónlist eftir Jonny Greenwood.

35. The Silence of the Lambs (1991)

Jodie Foster fer með hlutverk Clarice Starling, ungrar rannsóknarlögreglukonu sem leitar ráða hjá mannætunni og raðmorðingjanum Hannibal Lecter (Anthony Hopkins) til að finna hættulegan morðingja sem gengur laus. The Silence of the Lambs er bæði sálfræðilegur hryllingur og spennutryllir á hæsta stigi, ein sú besta sinnar tegundar og mögulega sú allra besta.

34. The Departed (2006)

Martin Scorsese endurgerir Infernal Affairs sem spennu- og glæpasögu um tvo menn sitt hvoru megin við lögin: ungan lögreglumann, Billy Costigan (Leonardo DiCaprio), sem gengur inn í mafíuna sem leynilögreglumaður, og glæpamanninn Colin Sullivan (Matt Damon), sem hefur á sama tíma komið sér fyrir innan lögreglunnar fyrir hönd mafíunnar. Þétt, vel leikin og virkilega spennandi mynd um blekkingar, trúnað og tvöfalt líf.

33. The Florida Project (2017)

Sean Baker fangar líf fátækra í úthverfum Orlando með augum barna sem alast upp í brotnu umhverfi. Myndin sýnir heiminn frá sjónarhorni þeirra – fullan af leik, ævintýrum og sakleysi – jafnvel þegar raunveruleikinn í kringum þau er harður og ógnvekjandi. The Florida Project er raunsæ og ógleymanleg kvikmynd sem varpar ljósi á hvernig börn finna fegurð og gleði, jafnvel við erfiðustu uppeldisaðstæður. Gerð fyrir einungis tvær milljónir dollara sem sýnir svo sannarlega að það þarf ekki stórmyndabudget til að skapa ógleymanlegt meistaraverk.

32. In Bruges (2008)

Tveir leigumorðingjar leita skjóls í miðaldaborginni Brugge í Belgíu eftir misheppnað verkefni. Colin Farrell á hér eina bestu frammistöðu ferilsins í mynd sem sameinar svartan húmor og djúpar pælingar um sektarkennd og tilgang lífsins. Handrit Martin McDonagh er stórkostlegt, tónlistin eftir Carter Burwell grípandi og drungaleg og passar fullkomlega við stemningu borgarinnar. Ralph Fiennes og Brendan Gleeson sýna einnig heimsklassaleik og In Bruges er ein sú besta mynd sem McDonagh hefur leikstýrt.
Honorable mention: Three Billboards Outside Ebbing, Missouri.

31. Inception (2010)

Christopher Nolan tekst á við undirmeðvitundina með ótrúlegu hugmyndaflugi og frásagnarlist. Myndin fylgir teymi sem brýst inn í drauma annarra til að stela upplýsingum og planta hugmyndum í undirmeðvitund þeirra. Handritið er flókið en fullkomlega útfært, og tónlist Hans Zimmer magnar upp tilfinningarnar og heldur áhorfandanum í stöðugri spennu. Inception er jafnframt shakespeareísk kómedía á heimsmælikvarða sem sameinar sorg og missi, hasar og tilvistarpælingar í einu stórbrotnu verki.

30. Fargo (1996)

Fargo er glæpasaga byggð á raunverulegum atburðum og gerist í Minnesota árið 1987. Jerry Lundegaard (William H. Macy), bílasali í fjárhagsvandræðum, ræður tvo smáglæpamenn (Steve Buscemi og Peter Stormare) til að ræna eiginkonu sína í þeirri von að fá lausnargjald frá auðugum tengdaföður sínum. Áformin fara þó hratt úr böndunum og óreiðukennd atburðarás tekur við. Frances McDormand fer á kostum sem jarðbundna lögreglukonan Marge Gunderson, sem tekst á við málið með einlægni og æðruleysi. Myndin fangar kaldhæðni, húmor, mannlega heimsku og níhílíska grimmd í meistaraverki Coen-bræðranna.

29. The Lord of the Rings: Two Towers / The Return of the King (2002–2003)

Í miðhluta og lokakafla þríleiksins heldur ferðalag Fróða og Sáms áfram í meistaralegri útfærslu. The Two Towers sýnir einn magnaðasta bardaga kvikmyndasögunnar þegar Rohan ver sig í Helms Deep, en The Return of the King er af mörgum talin sú besta í seríunni, þar sem ferðin nær dramatískum endalokum. Myndirnar undirstrika þemu þrautseigju, hugrekkis og vináttu, og Peter Jackson innsiglar fullkominn þríleik með þessum framhaldsmyndum um Hringadróttinssögu.

28. Taxi Driver (1976)

Travis Bickle (Robert De Niro) er einmana leigubílstjóri í New York sem sekkur smám saman dýpra inn í myrkur eigin hugsana. Martin Scorsese dregur upp mynd af borg sem er óhrein, hættuleg og andlega tóm, og sýnir hvernig einangrun getur leitt til ofbeldis og sjálfsblekkingar. Taxi Driver er óþægilega nákvæm rannsókn á einmanaleika, reiði og þörf týndra manna fyrir tilgang, sama hvað hann kostar, og eitt áhrifamesta verk Scorsese á ferlinum.

27. Predator (1987)

Predator sameinar hráan hasar, frumstæðan ótta og dulúð í einu þéttasta spennuverki níunda áratugarins. Arnold Schwarzenegger leiðir hóp herforingja í björgunaraðgerð í frumskógum Gvatemala, en þeir lenda andspænis dularfullri, ósýnilegri veru sem ekki virðist vera af jörðu komin. Tónlist Alan Silvestri magnar upp spennuna og frumkraftinn í hverju atriði, og þungt, svitadrifið andrúmsloftið gerir Predator að ógleymanlegri hugleiðingu um karlægar drápshvatir, styrk og sjálfsbjargarhvöt mannsins.

26. Harakiri (1962)

Í Japan á sautjándu öld mætir aldraður hirðlaus samúræji, Tsugumo Hanshirō (Tatsuya Nakadai), í virki lénherra og biður um að fá að fremja heiðurs-sjálfsvíg, harakiri. Honum er leyft að segja sögu sína áður en athöfnin hefst, en smám saman kemur í ljós að hann er ekki kominn til að deyja, heldur til að afhjúpa hræsni og grimmd samúræjahefðarinnar og hefna ungs manns sem var sviptur reisn sinni. Harakiri er magnað meistaraverk um vald, heiður og mannlega reisn, þar sem Masaki Kobayashi afhjúpar myrkari hliðar japanskrar hefðar með ógleymanlegu andrúmslofti og fullkominni kvikmyndatöku.

25. Singin’ in the Rain (1952)

Singin’ in the Rain er kvikmynd sem fangar gleði, fegurð og bjartsýni gullaldar Hollywood. Hún gerist á tímamótum þegar þöglu myndirnar víkja fyrir talmyndum. Gene Kelly leiðir myndina með orku, sjarma og ógleymanlegum dansatriðum sem geisla af gleði og heiðarleika og ná hágæðaútkomu bæði fagurfræðilega og tónlistarlega. Singin’ in the Rain er sannkallað tímamótaverk bandarísku gullaldarinnar.

24. It’s a Wonderful Life (1946)

It’s a Wonderful Life segir frá George Bailey (James Stewart), manni sem fórnar eigin draumum um ævintýri og frama til að styðja samfélagið sitt og fjölskyldu. Þegar hann stendur á barmi örvæntingar og eftirsjár fær hann að sjá hvernig lífið hefði orðið án hans. Myndin má teljast andhverfa A Christmas Carol eftir Dickens, saga sem snýst ekki um græðgi heldur gildi samstöðu og fórnfýsi. Þetta klassíska meistaraverk, með fullkomnu handriti og heillandi leik James Stewart, er oft talin besta jólamynd allra tíma.

23. Top Gun: Maverick (2022)

Top Gun: Maverick er sjaldgæf undantekning í heimi framhaldsmynda, mynd sem nær að verða betri en forverinn. Hún er sérstaklega athyglisverð þar sem 36 ár líða milli hennar og upprunalegu myndarinnar Top Gun (1986), sem er eitt lengsta bil milli kvikmyndar og beins framhalds í sögu Hollywood. Tom Cruise snýr aftur sem Pete “Maverick” Mitchell, flughetjan sem er fengin til að þjálfa hóp ungra orrustuflugmanna fyrir lífshættulegt verkefni á vegum flughersins. Myndin er stútfull af stórkostlegri tónlist, frábærum flugatriðum og „production value“ sem fáar nútímamyndir ná að keppa við. Hún ber sterkan boðskap um aga, hugrekki og ábyrgð og sýnir Hollywood upp á sitt allra besta.

22. The Big Short (2015)

The Big Short eftir Adam McKay fjallar um fjármálahrunið 2008 og hóp manna sem sáu það fyrir, og hvernig þeir græddu á því. Christian Bale, Steve Carell, Ryan Gosling og Brad Pitt leiða stóran leikhóp í mynd sem tekst að gera flókin efnahagsmál aðgengileg og skýr með ótrúlega skemmtilegri frásögn. Myndin er full af beittum húmor þar sem McKay afhjúpar heim spillingar, sjálfsblekkingar og græðgi með kaldhæðni og nákvæmni. Hún er bæði fyndin og óþægilega raunsæ og sýnir hvernig hið raunverulega „Matrix“ hrynur þegar kerfið byggist á blindu trausti og græðgi.

21. Le Trou (1960)

Le Trou eftir Jacques Becker er ein áhrifamesta fangelsismynd kvikmyndasögunnar. Hún segir frá hópi fanga í París árið 1947 sem skipuleggur flótta úr fangelsinu með því að grafa göng út úr klefanum sínum. Myndin er látlaus og ótrúlega raunveruleg, byggð á sönnum atburðum, og leikurinn er svo náttúrulegur að maður gleymir því gjörsamlega að vera að horfa á leikna kvikmynd. Le Trou er meistaraverk um sálfræði, traust, þrautseigju og vináttu og eitt besta dæmi um hvernig einföld frásögn getur orðið djúp og mannleg.

20. Whiplash (2014)

Whiplash eftir Damien Chazelle er hrá og öflug saga um metnað, þrá og ofbeldi í nafni fullkomnunar. Miles Teller leikur unga trommara sem gengur í virtan tónlistarskóla og lendir undir stjórn ógnvekjandi kennara, leiknum af J.K. Simmons í einni eftirminnilegustu frammistöðu síðari ára. Myndin rannsakar línuna milli aga og pyntingar, snilligáfu og sjálfseyðingar, og heldur áhorfandanum í stöðugri spennu frá byrjun til enda. Whiplash er hreinskilin og stórfengleg kvikmynd sem skorar á áhorfandann með djúpum spurningum um eltingarleikinn við að verða frábær listamaður og hvað það raunverulega kostar að ná yfirburðarhæfni.

19. Terminator 2: Judgment Day (1991)

James Cameron leikstýrir hér einni áhrifamestu og svakalegustu hasarmynd kvikmyndasögunnar. Terminator 2 fylgir sögu Sarah Connor (Linda Hamilton) og sonar hennar John, sem er ætlað að leiða mannkynið í framtíðarbaráttunni gegn gervigreindinni Skynet og vélaher hennar. Frá framtíðinni kemur ný tegund morðvélmenna, T-1000 (Robert Patrick), úr fljótandi málmi, send til að drepa John Connor. Á sama tíma er eldri útgáfa tortímandans (Arnold Schwarzenegger) endurforrituð og send aftur í tímann til að vernda hann. T2 er ekki bara byltingarkennd hasarmynd frá tíunda áratugnum heldur einnig grípandi handrit og tímalaus vísindaskáldskapur.

18. Braveheart (1995)

Mel Gibson leikstýrir og fer með aðalhlutverk í þessu stórbrotnu sögulega drama sem byggt er á lífi skosku frelsishetjunnar William Wallace. Eftir að konan hans er drepin af enskum hermönnum sameinar Wallace þjóð sína í uppreisn gegn ofríki Englands undir stjórn konungsins Edwards Longshank. Braveheart fangar vel hugtök á borð við frelsi, réttlæti og fórn, þar sem kraftmikil tónlist James Horner og stórkostlegar bardagasenur skapa eina eftirminnilegustu sögulegu kvikmynd 10. áratugarins.

17. Poor Things (2023)

Yorgos Lanthimos leikstýrir þessari einstöku og sjónrænt stórkostlegu mynd sem byggð er á skáldsögu Alasdairs Gray. Emma Stone fer á kostum í hlutverki Bellu Baxter, konu sem er vöknuð til lífs aftur af sérvitringnum dr. Godwin Baxter (Willem Dafoe). Hún byrjar sem eins konar barn í líkama fullorðinnar konu en þróast fljótt í sjálfstæða, forvitna og ástríðufulla manneskju sem neitar að láta segja sér fyrir verkum. Poor Things er frumleg ádeila og ævintýri, full af húmor, frábærum leik og ótrúlegri framsetningu.

16. Django Unchained (2012)

Quentin Tarantino færir sig í vestrarformið og segir sögu þrælsins Django (Jamie Foxx), sem fær frelsi sitt með hjálp mannaveiðarans dr. King Schultz (Christoph Waltz). Saman fara þeir af stað til að bjarga eiginkonu Django úr klóm grimma búgarðseigandans Calvin Candie (Leonardo DiCaprio), sem heldur blóðugar Mandingo bardagakeppnir á plantekrunni sinni. Django Unchained er kröftug, spennandi og meistaralega leikstýrð mynd þar sem DiCaprio skín sem Candie og Tarantino sannar sig á ný sem óumdeildur meistari. Af tveimur snilldar vestrum frá Tarantino er Django Unchained betri, með dýpri sögu og öflugri senum.

15. Inglourious Basterds (2009)

Inglourious Basterds gerist á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og fylgir hópi bandarískra hermanna undir forystu Aldo Raine (Brad Pitt), sem hafa það markmið að drepa eins marga nasista og þeir geta. Á sama tíma skipuleggur franski kvikmyndahúseigandinn Shosanna (Mélanie Laurent) eigin hefnd gegn nasistum í París. Myndin er háspennuævintýri full af snjöllum samtölum, grípandi leik og inniheldur þrjár sturlaðar senur sem teljast meðal þeirra bestu í kvikmyndasögunni. Christoph Waltz stelur senunni sem Hans Landa og hlaut Óskar fyrir frammistöðu sína, sem sýnir m.a. yfirburðahæfni Tarantinos til að velja rétta leikara í réttu hlutverkin.

14. Interstellar (2014)

Interstellar eftir Christopher Nolan er stórfengleg vísindaskáldsaga um ást, tíma og von. Þegar jörðin sjálf er að deyja leggur fyrrverandi geimfari, Cooper (Matthew McConaughey), upp í lífshættulegt ferðalag í gegnum ormagöng í leit að nýrri plánetu sem mannkynið gæti lifað á. Myndin sameinar frábæra frásögn, mikla tilfinningadýpt og glæsilegt sjónrænt meistaraverk með einni áhrifamestu kvikmyndatónlist 21. aldar eftir Hans Zimmer. Interstellar minnir á hversu öflugt listform kvikmyndin getur verið.

13. Léon: The Professional

Léon: The Professional eftir Luc Besson segir frá ólíklegri vináttu milli leigumorðingjans Léon (Jean Reno) og ungu stúlkunnar Mathildu (Natalie Portman), sem leitar skjóls hjá honum eftir að fjölskylda hennar er myrt. Léon kennir henni aðferðir leigumorðingja og þau mynda sterk vináttutengsl þar sem óvenjulegt samband þeirra dýpkar smám saman. Myndin er spennandi, falleg og sorgleg í senn, með eftirminnilegum leik Natalie Portman sem sló í gegn aðeins tólf ára gömul. Gary Oldman skilar hér einni af sínum áhrifamestu og mest ógnvekjandi frammistöðum og tónlist Eric Serra lyftir þessu meistaraverki á enn hærra plan. Léon: The Professional er algjört meistaraverk um einmanaleika, ást og endurlausn í ofbeldisfullum heimi mafíunnar og spillingar.

12. A Clockwork Orange (1971)

A Clockwork Orange eftir Stanley Kubrick er stórbrotin og óvenjuleg saga sem fylgir Alex DeLarge (Malcolm McDowell), ofbeldisfullum pörupilti sem lifir fyrir ofbeldi, vald og klassíska tónlist. Þegar hann er handtekinn og settur í endurhæfingu snýst líf hans á hvolf, og kerfið sem ætlar sér að „laga“ hann verður sjálft að tákni yfirráða og mannlegrar stjórnsemi. Myndin er ótrúlega frumleg, með mögnuðu myndmáli og heimspeki um frjálst val, siðferði og stjórn. Hún er í raun öfug útgáfa af hetjuferlinu, ferð andhetjunnar, þar sem áhorfandinn fylgir falli og umbreytingu manns sem er hvorki hetja né fullkomið illmenni. A Clockwork Orange er besta mynd Kubricks, sem er ekki lítið sagt, og stendur enn sem eitt öflugasta og frumlegasta kvikmyndaverk allra tíma.

11. The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring (2001)

The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring eftir Peter Jackson markar upphaf eins stórkostlegasta þríleiks kvikmyndasögunnar. Myndin segir frá Fróða (Elijah Wood), sem fær í hendur hringinn eina, og ferð hans með hópi félaga til að koma hringinum til eyðingar áður en hann fellur í hendur hins illa. Myndin er stórbrotin blanda af ævintýri, klassískri hetjuferð og djúpum þemum um vald, fórn og hugrekki. The Fellowship of the Ring stendur bæði sem stórkostlega vel heppnuð byrjun á epískum og ódauðlegum þríleik, en jafnframt sem sjálfstæð kvikmynd og ein besta ævintýramynd kvikmyndasögunnar. Með magnaðri tónlist eftir Howard Shore, stórkostlegum bardagasenum og ógleymanlegu leikaraliði skapaði Peter Jackson kvikmyndaheim sem seint verður trompaður.

10. Groundhog Day (1993)

Groundhog Day eftir Harold Ramis segir frá Phil Connors (Bill Murray), kaldhæðnum og sjálfhverfum veðurfréttamanni sem festist í tímalykkju og þarf að lifa sama daginn aftur og aftur í litla bænum Punxsutawney í Pennsylvaníu. Fyrst reynir hann að nýta stöðuna til eigin skemmtunar, festist um tíma í pytti sjálfsvorkunnar, en smám saman byrjar hann að breytast og læra af mistökum sínum. Myndin er í eðli sínu djúp og andleg, með sterkan boðskap um sjálfsþekkingu, vöxt og eilífa leit mannsins að merkingu. Hún minnir á mikilvægi þess að þjóna öðrum og setja eigið ego til hliðar. Groundhog Day er tímalaus klassík og ein áhrifamesta gamanmynd allra tíma.

9. Captain fantastic (2016)

Captain Fantastic eftir Matt Ross segir frá Ben (Viggo Mortensen), einstæðum föður sem elur upp sjö börn sín langt frá samfélaginu, í faðmi náttúrunnar og algjörlega utan kerfisins. Þar kennir hann þeim að lifa sjálfbæru lífi, lesa heimspeki og þroska eigin sjálfstæða og gagnrýna hugsun. Þegar móðir barnanna fellur frá bannar íhaldssamur afi þeirra, faðir móðurinnar, Ben að koma í jarðarförina. Þrátt fyrir það ákveður fjölskyldan að gerast boðflenna í jarðarförinni. Myndin er stórkostleg og flókin ádeila á nútímasamfélagið, með frábærum leik Viggo Mortensen sem dregur upp mannlega og marglaga mynd af föður sem reynir að gera rétt á eigin forsendum. Captain Fantastic er djúp og falleg saga um ást, uppeldi og leitina að jafnvægi milli hugsjóna, veruleika og menningar.

8. 12 Angry Men (1957)

12 Angry Men eftir Sidney Lumet gerist nær alfarið inni í kviðdómsherbergi þar sem tólf karlmenn þurfa að ákveða örlög ungs manns sem ákærður er fyrir morð. Allir virðast sammála um sekt hans, nema einn, leikinn af Henry Fonda, sem byrjar að efast og krefst þess að málið sé rætt til hlítar. Myndin er meistaralegt dæmi um hversu spennandi kvikmynd getur orðið án hasars, tónlistar eða tæknibrellna. Hún byggir eingöngu á samtölum, persónulegum átökum og frammúrskarandi leik og handriti. 12 Angry Men er sígild og áhrifamikil rannsókn á fordómum, samvisku og siðferðislegri ábyrgð, og minnir á að stundum nægir ein rödd til að breyta öllu.

7. The Princess Bride (1987)

The Princess Bride eftir Rob Reiner er sígilt ævintýri sem blandar saman rómantík, bardögum, ævintýri og húmor á fullkominn hátt. Sagan segir frá Buttercup (Robin Wright) og Westley (Cary Elwes), elskendum sem aðskiljast en sameinast aftur í baráttu gegn illmennum, hættum og jafnvel dauðanum sjálfum. Sögumaðurinn er afi sem les upp bókina The Princess Bride fyrir rúmliggjandi, veikt barnabarn sitt. Tónlist Mark Knopfler fangar fullkomlega töfraheim myndarinnar og styrkir bæði rómantíkina og ævintýraandann. The Princess Bride er ein af þessum myndum með fullkomið og bráðskemmtilegt handrit sem eldast ekki, heldur verður betri með hverri kynslóð. Töfrandi, fyndin og ómótstæðilega heillandi.

6. The Truman Show (1998)

The Truman Show eftir Peter Weir segir frá Truman Burbank (Jim Carrey), manni sem lifir fullkomnu lífi í fallegum smábæ þar til hann byrjar að gruna að allt sé leikrit. Hann uppgötvar að allt sem hann þekkir er gerviheimur, sjónvarpsþáttur þar sem fylgst er með honum allan sólarhringinn, og að vinir hans, fjölskylda og eiginkona eru allt leikarar. Myndin er bæði ádeila og hugleiðing um raunveruleika, heilaþvott, frelsi og áhrif fjölmiðla og falskrar fullkomnunar. The Truman Show sýnir Jim Carrey í einni sinni bestu frammistöðu, og tónlist Burkhard Dallwitz og Philip Glass gefur myndinni djúpa tilfinningalega dýpt. Þetta er áhrifamikil, falleg og tímalaus kvikmynd um andlega vakningu, leit mannsins að sannleikanum og hugrekkið til að stíga út úr blekkingunni og vakna til meðvitundar.

5. The Shawshank Redemption (1994)

The Shawshank Redemption í leikstjórn Frank Darabont, byggð á smásögu Stephen King, segir frá Andy Dufresne (Tim Robbins), bankamanni sem er ranglega dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morð á eiginkonu sinni og elskhuga hennar. Í fangelsinu hittir hann Red (Morgan Freeman), og á milli þeirra myndast djúp vinátta sem verður báðum mönnum vonarljós í myrkrinu. Þetta er sannkölluð andans mynd sem fjallar um þrautseigju, vináttu og vonina í spilltu fangelsi. The Shawshank Redemption er áhrifamikil saga um mannlega reisn og frelsisþrá, með ógleymanlegum leik, sterku handriti og hefur ítrekað verið valin ein besta kvikmynd allra tíma.

4. Jurassic Park (1993)

Jurassic Park eftir Steven Spielberg er ekki aðeins einn besti blockbuster allra tíma heldur djúp og marglaga saga um náttúruna, lífið og þann dularfulla kraft sem heldur öllu í jafnvægi. Myndin segir frá hópi vísindamanna sem fær að sjá það ótrúlega, útdauðar risaeðlur endurlífgaðar með erfðatækni.
Þegar náttúrulögmálin rofna svarar náttúran á sinn hátt og minnir á hina óumbreytanlegu reglu lífsins, að náttúran lætur ekki hemja sig heldur finnur sér alltaf leið.
Jurassic Park fjallar ekki aðeins um vísindi og hættuna við að leika Guð heldur um hið ósýnilega skipulag sem liggur að baki tilverunni, samspil krafta sem maðurinn getur hvorki stjórnað né skilið til fulls. Hún er saga um undrun, lífskraft og þá óumflýjanlegu speki náttúrunnar að öll sköpun fylgir jafnvægi. Með tónlist John Williams og leikstjórn Spielbergs verður Jurassic Park að kvikmynd sem snertir bæði hugann og sálina, stórkostlegt meistaraverk og tímalaus klassík í allri sinni dýrð.

3. Raiders of the Lost Ark (1981)

Raiders of the Lost Ark frá Steven Spielberg er hreint út sagt fullkomin ævintýramynd. Hún sameinar hasar, húmor, spennu og leyndardóma á þann hátt sem fáar kvikmyndir hafa náð síðan. Harrison Ford fer á kostum sem fornleifafræðingurinn Indiana Jones, sem keppir við nasista um að finna sáttmálsörkina helgu, goðsagnakenndan grip með yfirnáttúrulega krafta. Myndin er jafn fersk í dag og hún var árið 1981. Tónlist John Williams er hér upp á sitt besta og fangar fullkomlega epískan anda og hetjulega stemmningu myndarinnar með einu frægasta stefi kvikmyndasögunnar.
Raiders of the Lost Ark er gullstaðall ævintýramynda, glæsileg blanda af gömlum Hollywood-töfrum, nútímalegri kvikmyndatækni og meistaralegri kvikmyndasmíði sem mótaði heila kynslóð kvikmyndaáhugamanna.

2. Pulp Fiction (1994)

Pulp Fiction eftir Quentin Tarantino er kvikmynd sem breytti gangi kvikmyndasögunnar. Hún fléttar saman ólínulegar sögur af glæpamönnum, handrukkurum og hnefaleikakappa í Los Angeles með einstakri blöndu af svörtum húmor, ofbeldi og frásagnarlist á guðdómlegu stigi.
Samtölin sjálf halda áhorfandanum föngnum frá upphafi til enda.
Myndin inniheldur heimspeki og háspennu í einstöku flæði sem aðeins Tarantino getur skapað. Hvert samtal, hver sena og hvert tónlistaratriði er hannað af fullkominni nákvæmni og ástríðu sem gerir Pulp Fiction að ódauðlegu listaverki. Undir yfirborði ofbeldis og kaldhæðni býr dýpri boðskapur um fyrirgefningu, náð og andlega vakningu, og Pulp Fiction máir út mörkin milli drama og shakespeareískrar kómedíu. Hún stendur eftir sem ein áhrifamesta og frumlegasta kvikmynd allra tíma, vitnisburður um snilligáfu og einstakan stíl Tarantino.

1. One Flew Over the Cuckoo’s Nest (1975)

One Flew Over the Cuckoo’s Nest er byggð á samnefndri bók eftir Ken Kesey og leikstýrð af Miloš Forman. Hún hefur löngum verið talin ein áhrifamesta og mannlegasta kvikmynd sögunnar.
Sagan segir frá Randle P. McMurphy (Jack Nicholson), fanga sem er látinn dvelja á geðspítala þar sem hann byrjar að hvetja vistmenn til uppreisnar gegn ómannúðlegu kerfi og yfirráðum hjúkrunarkonunnar Ratched (Louise Fletcher).
Jack Nicholson fer hér algjörlega á kostum í sínu besta hlutverki og skilar einni eftirminnilegustu frammistöðu kvikmyndasögunnar.
Snilldin felst í einfaldleikanum, og tónlistin fangar fullkomlega anda myndarinnar.
One Flew Over the Cuckoo’s Nest er ekki aðeins ein besta kvikmynd allra tíma, heldur djúp og táknræn frásögn af andlegu fullveldi, mannlegri reisn, vináttu og þrautseigju sálarinnar. Hún sýnir hvernig húmor, hugrekki, nánd og góðvild geta orðið uppreisn í sjálfu sér og fléttar allt þetta saman í hreint, tímalaust og fullkomið meistaraverk.