Fresta útgáfu Wonder Woman

Kvikmyndafyrirtækið Warner Bros. hefur ákveðið að fresta frumsýningu á stórmyndinni Wonder Woman 1984. Frumsýna átti myndina þann 5. júní næstkomandi en því hefur nú verið frestað um tvo mánuði og lendir þá ofurhetjan 14. ágúst.

Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur hver stórmyndin á eftir annarri fallið af plani næstkomandi frumsýninga. Kvikmyndahús víða um heim hafa þurft að loka dyrum í ótilgreindan tíma vegna samkomubanna og almennra öryggisráðstafana.

„Við vonumst innilega til þess að heimurinn verði að öruggari og heilbrigðari stað fyrir þann tíma,“ segir í tilkynningu frá Toby Emmerich, forstjóra Warner Bros., og vísar í nýju dagsetninguna.

Fyrir rúmri viku var gefið út (dúndurflott) hreyfiplakat fyrir myndina þar sem upprunalegi frumsýningardagurinn var undirstrikaður. Heppilega þurfa aðdáendur Wonder Woman ekki að bíða of lengi, að öllu óbreyttu.