James Cameron hefur staðfest að framhaldsmyndir Avatar verði þrjár talsins.
Framleiðsla á öllum myndunum hefst á næsta ári og verður fyrsta framhaldsmyndin frumsýnd í desember 2016. Önnur myndin verður frumsýnd í desember árið eftir og sú þriðja í desember 2018.
Leikstjórinn hafði áður látið hafa eftir sér að framhaldsmyndirnar yrðu tvær.
Cameron hefur ráðið nokkra handritshöfunda til að aðstoða sig við myndirnar þrjár. Þeir eru Josh Friedman sem skrifaði handritið að War of the Worlds, Rick Jaffa og Amanda Silver sem sömdu handritið að Rise of the Planet of the Apes, og Shane Salerno, handritshöfundur Savages.
„Að byggja ofan á heiminn sem við sköpuðum með Avatar hefur verið mjög gefandi reynsla,“ sagði Cameron. „Á meðan ég hef verið að undirbúa þessar nýju myndir hef ég komist að því að heimur Avatar, sagan og persónurnar eru stærri í sniðum en ég bjóst við og það var fljótlega ljóst að tvær myndir væru ekki nóg til að fanga allt sem mig langaði að sýna á hvíta tjaldinu.“