Leikstjórinn James Cameron segir í nýlegu viðtali að það sé unnið hörðum höndum að framhaldsmyndum Avatar. Cameron er djúpt sokkinn um þessar mundir í handritsvinnu að Avatar 2 & 3 og grínast með það að Lord of the Rings myndir Peter Jackson séu engin vinna miðað við næstu myndir um Na’vi og plánetuna Pandóru.
„Þetta er ekki beint lítil dramamynd. Ég er að vinna að Avatar 2 og 3 á sama tíma og það er gífurleg vinna. Ég spjallaði við Peter Jackson um daginn og benti honum á að hann hafði bækurnar fyrir framan sig þegar hann gerði Lord of the Rings. Ég þarf að búa til mínar eigin bækur í hausnum á mér og útbúa handrit út frá því“ segir Cameron.
„Ég er djúpt sokkinn inn í þetta og ég á bókstaflega heima í Pandóru. Þetta er allt að koma saman og það er að myndast saga, og þá verður þetta loksins skemmtilegt. Persónurnar eru að gerjast og þá myndast handritið út frá því. Nú er þetta að gerast hratt og örugglega“ segir Cameron að lokum.
Það eru gífurlegar væntingar til næstu Avatar því sú seinasta sló öll aðsóknarmet og var m.a. tilnefnd til Óskarsverðlauna.