Forsala hafin á The Hunger Games

Smám saman hefur „hæpið“ fyrir The Hunger Games verið að stigmagnast og ljóst er að þetta verði ein af forvitnilegri myndum ársins sem mun vonandi standa undir væntingum. Myndform tilkynnti það í morgun að forsalan á henni væri hafin inn á midi.is.

The Hunger Games er byggð á fyrstu bókinni í vinsælum þríleik eftir Suzanne Collins. Myndin hefur verið að gera góða hluti í forsölunni í Bandaríkjunum, og þegar er hafin vinnslan á næstu mynd, Catching Fire. Annars kom það líka fram núna nýlega að heildarlengd myndarinnar verði 142 mínútur, sem þýðir að fólk ætti að fá nóg fyrir peninginn sinn.

Sagan lýsir sér þannig að Norður-Ameríka hefur verið lögð í rúst og ber núna heitið Panem. Árlega eru haldnir Hungursleikar og unglingar neyddir til að taka þátt. Leikarnir eru að hluta til afbrigðileg skemmtun, og að hluta til kúgunartæki stjórnvalda. Þar er keppendum att saman þangað til að aðeins einn þeirra stendur eftir lifandi. Katniss (Lawrence) er keppandi í leikunum, og hún þarf að reiða sig á eðlisávísun sína og gamlan og drykkfelldan þjálfara vilji hún lifa leikana af og komast heim til sín aftur.
The Hunger Games verður heimsfrumsýnd þann 23. mars.