Forsala á Avatar: The Way of Water hefst í dag kl. 17

Forsala miða á Avatar: The Way of Water hefst klukkan 17:00 í dag mánudag en myndin verður frumsýnd þann 16. desember. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SAM bíóunum.

Þar segir einnig að hægt er að tryggja sér miða á þennan „stórviðburð í sögu kvikmyndanna“, inni á sambio.is og í miðasölum Sambíóanna.

„Fyrir nærri 13 árum síðan kom, meistaraverk James Cameron og tekjuhæsta kvikmynd allra tíma Avatar, í kvikmyndahús og nú loksins fer að líða að því að framhaldsmyndin Avatar: The Way of Water birtist á stóra tjaldinu,“ segir í tilkynningunni.

Fyrsti áfangi opnar eftir breytingar

Undanfarin misseri hafa staðið yfir framkvæmdir og endurbætur í Sambíóunum Kringlunni en nú í lok nóvember er fyrirhuguð opnun á fyrsta áfanga eftir breytingar. Fljótlega í kjölfarið verður svo opnaður stærsti og glæsilegasti VIP LÚXUS bíósalur landsins og þótt víðar væri leitað, eins og segir í tilkynningunni.

Sýnd í sólarhring

Í tilefni þess að Sambíóin Kringlunni eru að vakna aftur til lífsins eftir fegurðarblund sinn verður Avatar: The Way of Water sýnd í 2D og 3D í heilan sólarhring og verða fyrstu sýningar klukkan 10:40 að morgni 16. desember.