Framleiðslufyrirtækið Focus Features hefur ákveðið að setja spennutryllirinn Let Him Go í gang, en í broddi fylkingar þar verða Óskarsverðlaunaleikarinn Kevin Costner og Óskarstilnefnda leikkonan Diane Lane. Þau léku síðast saman foreldra Súperman í Man of Steel.
.Thomas Bezucha (The Family Stone) leikstýrir eftir handriti sem hann skrifaði sjálfur eftir samnefndri skáldsögu Larry Watson. Að því er fram kemur í MovieWeb þá munu tökur hefjast nú í vor. Munu Focus Features og Universal Pictures sjá um að dreifa myndinni um allan heim.
Kvikmyndin fjallar um það að hjónin George Blackledge, sem er fyrrum lögreglustjóri, leikinn af Kevin Costner, og eiginkona hans Margaret, sem Diane Lane leikur, fara af búgarði sínum til að bjarga ungu barnabarni úr klóm hættulegrar fjölskyldu sem býr utan hefðbundins samfélags manna í útjaðri Dakota, og er stjórnað af ættmóðurinni Blanche Weboy. Þegar þau komast að því að Weboy fjölskldan hefur engan áhuga á að sleppa barninu úr sinni umsjá, þá eiga George og Margaret enga úrkosti aðra en að láta sverfa til stáls og berjast fyrir eigin fjölskyldu og fjölskyldumeðlimum.
Kevin Costner er tvöfaldur Óskars – og Golden Globe verðlaunahafi ( Dances with Wolves) og Emmy, Golden Globe og SAG verðlaunahafi (Hatfields & McCoys). Lane var Óskarstilnefnd fyrir (Unfaithful), tilnefnd til Golden Globe verðlauna (Under the Tuscan Sun) og til Emmy verðlauna (Cinema Verite og Lonesome Dove) . Lane lék nýverið í síðustu seríu af Netflix þáttunum House of Cards og næst á dagskrá hjá henni er að leika í sjónvarpsþáttunum Y: The Last Man.