Finnbogi og Felix koma í bíó 2013

Disney tilkynnti í vikunni að handritshöfundurinn Michael Arndt hefði verið ráðinn til skrifa bíómyndar eftir sjónvarpsþáttunum Phineas and Ferb, sem íslenskir áhorfendur þekkja sennilega betur undir nöfnunum Finnbogi og Felix. Disney hefur góða reynslu af Arndt, því hann var einn handritshöfunda Toy Story 3 og vann þar að auki óskarsverðlaun fyrir sitt fyrsta handrit, Little Miss Sunshine. Næsta mynd hans er Broadway-aðlögunin Rock of Ages, með Tom Cruise, Alec Baldwin, Russel Brand og mörgum fleirum í aðalhlutverkum.

Stjórnendur þáttanna um Finnboga og Fleix, Swampy Marsh og Dan Povenmire, hafa unnið fyrstu gerð handritsins og mun Arndt halda áfram út frá því. Þættirnir hafa verið sýndir á The Disney Channel síðan 2007, og fylgja fyrrnefndum stjúpbræðrum, er þeir reyna að finna sér ævintýri að lenda í í sumarfríinu sínu. Systir þeirra Candace (Eydís) er hins vegar ekki alltaf jafn hrifin af uppátækjum bræðranna. Þá á fjölskyldan einnig Breiðnef fyrir gæludýr sem án þeirra vitneskju er leynilegur útsendari serm berst við hinn illa vísindamann Dr. Heinz Doofenshmirtz. Þættirnir hafa öðlaðst talsverðar vinsældir meðal barna sem fullorðinna, ekki síst vegna metnaðarfullra tónlistaratriða sem eru í nánast hverjum þætti, og hafa skilað fjórum Emmy tilnefningum. Yfir 130 þættir hafa verið framleiddir, og ætlar Disney að gera Finnboga og Felix að næsta stóra markaðsfyrirbæri sínu, og á næstu árum munu yfir 200 vörur með merki þáttarins koma í verslanir – allt frá nærbuxum til hjólabretta. Herferðin mun væntanlega ná hápunkti sumarið 2013 þegar áætlað er að myndin komi út.

Ekkert hefur verið gefið upp um efni myndarinnar, en það gæti valdið aðdáendum þáttanna talsverðum áhyggjum að Disney virðist ekki ætla að gera hefðbundna teiknimynd í stíl þáttanna, heldur leikna mynd í bland við CGI, í stíl við Alvin og Íkornana eða Strumpana. Hér er annars byrjunarlag þáttanna á íslensku: