Fincher hatar konur!

Ameríska endurgerð myndarinnar Karlar sem Hata Konur (sem á ensku heitir The Girl with the Dragon Tattoo) virðist núna vera í höndum Davids Fincher (Se7en, Fight Club), eða svo segir vefurinn The Playlist.

Stieg Larsson-myndirnar þurfa ekki á neinni kynningu að halda hér á landi. Allar þrjár myndirnar í seríunni hafa verið sýndar og sópað að sér gríðarlegum fjölda fólks. Fyrsta myndin var aftur á móti frumsýnd í bandaríkjunum fyrir bara örstuttu síðan og hún hefur heldur betur fengið athygli gagnrýnenda þar. Roger Ebert gaf henni t.d. fjórar stjörnur.

Heyrst hefur að Carey Mulligan (An Education) eigi að leika amerísku útgáfuna af Lisbeth Salander en Fincher segist vera á móti því og vill frekar finna óþekkta leikkonu.

Leikstjórinn er annars að ljúka við nýjustu mynd sína, The Social Network, sem fjallar um hvernig Facebook varð til.