Fimm myndir sýndar á RIFF í tengslum við komu heiðursgestsins Jim Jarmusch

Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Jim Jarmusch er heiðursgestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF, í ár. Jarmusch kemur hingað til lands ásamt eiginkonu sinni, Söru Driver, og tekur við heiðursverðlaunum hátíðarinnar fyrir framúrskarandi listræna sýn, en það verður forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, sem mun veita verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum hinn 1. október.

Í fréttatilkynningu segir að RIFF fagni komu þeirra hjóna með því að sýna eina eldri mynd eftir hvort þeirra, You Are Not I (1981) eftir Driver og Down By Law (1986) eftir Jarmusch, en í henni kom Roberto Benigni fyrst fram á sjónarsviðið. Þá verður nýjasta mynd Jarmusch, The Limits of Control (2009) einnig sýnd.



Úr myndinni Down By Law.

„Driver og Jarmusch eru skáldlegir röntgentæknar sem vinna oft í svarthvítu – gegnumlýsa persónur sínar inn að beini á meðan þær takast á við yfirþyrmandi aðstæður. Samstarf eins og þeirra er sjaldséð og einstakt. Skorað er á áhorfendur RIFF að nýta ómetanlegt tækifæri til þess að kynna sér það,“ segir í tilkynningunni.

Auk áðurnefndra þriggja mynda mun Kvikmyndasafn Íslands sýna tvær myndir eftir Jarmusch í tilefni af komu hans hingað til lands. Þær myndir eru annars vegar Dead Man (1995) sem skartar Johnny Depp í aðalhlutverkinu og Coffee & Cigarettes (2003) þar sem fjölmargir þekktir listamenn koma fyrir, svo sem Iggy Pop, Tom Waits, Steve Buscemi og Bill Murray. Auk þessa mun Jarmusch verða með svokallaðan masterklassa í hátíðarsal Háskóla Íslands föstudaginn 1. október kl. 13 þar sem leikstjórinn mun spjalla um heima og geima. Leikstjórinn Dagur Kári og gagnrýnandinn Harlan Jacobsson munu stýra umræðunum.

Hér að neðan eru ítarlegri upplýsingar um þær þrjár myndir sem sýndar verða á RIFF:

Þú ert ekki ég – You Are Not I
Sara Driver
(USA) 1981
48 mín.

Í fyrstu mynd Söru Drivers – sem hún leikstýrði, klippti, var meðframleiðandi að og höfundur handrits að ásamt Jim Jarmusch – fylgjumst við með ungri konu vandra út af geðsjúkrahúsi, nema staðar við skópar og frakka sem liggja á götunni ásamt líkum af fólki sem hefur lent í slysi. Við heyrum í rödd konunnar á meðan hún gengur áleiðis heim til systur sinnar þar sem fram fer uppgjör þeirra tveggja en einmitt það er efni smásögu eftir Paul Bowles sem er kveikjan að myndinni.

Búinn að vera – Down By Law
Jim Jarmusch
(USA) 1986
107 mín.

Búinn að vera var þriðja mynd Jarmusch en tvær þær fyrstu voru Permanend Vacation og Stranger Than Paradise. Í myndinni, sem gerist í New Orleans á níunda áratugnum, virðist allt geta gerst en ekki endilega eins og búast mætti við – en einmitt þetta er sérgrein Jarmusch. Fólk er skrýtið þegar maður er ókunnugur – auðvitað – og New Orleans hefur alltaf verið ein furðulegast borg Bandaríkjanna. Í myndinni kom ítalski leikarinn Roberto Benigni fram á sjónarsviðið. Í myndinni leika margir fastagestir í myndum Jarmusch, John Lurie, Tom Waits, Nicoletta Braschi og Ellen Barkin ásamt Söru Driver.

Takmörk valdsins – The Limits Of Control
Jim Jarmusch
(USA) 2009
116 mín.

Takmörk valdsins er ellefta mynd Jim Jarmusch en á honum er engan billbug að finna, enda aðeins 56 ára gamall. Þetta er vegamynd sem gerist á Spáni en er þó engri lík, full af skrýtnum persónum sem þjást af geðveiki eða reyna að fela hana. Á meðal leikara eru Isaach de Bankolé, Tilda Swinton, John Hurt, Gael Garcia Bernal, Hiam Abass og Bill Murray.