FIFA myndin floppar í USA

Vegna nýlegra hneykslismála þá má segja að tímasetningin hefði ekki getað verið verri til að frumsýna FIFA myndina ævisögulegu United Passions í bíó, en myndin var frumsýnd í takmarkaðri dreifingu í Bandaríkjunum um síðustu helgi, réttu ári eftir að hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes.

fifa

Myndin kostaði margar milljónir Bandaríkjadala og með helstu hlutverk fara stórleikararnir Tim Roth, Sam Neill og Gerard Depardieu.

Það er skemmst frá því að segja að gagnrýnendur hafa hakkað myndina í sig, og aðsóknin um helgina var eftir því; nánast engin.

Bandaríska dagblaðið The New York Times segir hana „eina þá óáhorfanlegustu mynd í manna minnum […]“.

Tekjur af sýningu myndarinnar í tíu bíóum í Bandaríkjunum um helgina námu 607 dölum, eða um 80 þúsund íslenskum krónum. Eitt bíó í Phoenix fékk 9 dollara í tekjur yfir helgina, sem þýðir að aðeins einn aðili borgaði sig inn.

Samkvæmt CNN fréttavefnum þá er ekki talið að þetta valdi FIFA miklum áhyggjum, enda sitja þeir á peningastabba að andvirði 1,5 milljarður dala, eða um 200 milljarðar íslenskra króna.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: