Ferrell tapar peningum

Gamanleikarinn Will Ferrell, sem þekktur er fyrir leik í fjölda grínmynda og í sjónvarpsþáttunum Saturday Night Live, tapaði nýlega máli gegn fjármálafyrirtækinu JPMorgan Chase.

Hópur fjárfesta, þar á meðal Ferrell, höfðaði mál fyrir gerðardómi vegna 18 milljóna Bandaríkjadala, rúmra tveggja milljarða íslenskra króna, sem þeir töldu bankann eiga að endurgreiða sér. Auk þess að fá peninginn ekki til baka, þarf hópurinn að greiða 634.500 dollara í lögfræðikostnað bankans, sekt og annan kostnað.
Ferrell, eiginkona hans, Viveca Paulin, viðskiptastjórinn Matt Lichtenberg og ónefndur sjóður, höfðuðu málið árið 2008, og sökuðu bankann um óleyfilegar fjárfestingar í verðbréfum, en hópurinn var með fé í fjárstýringu hjá bankanum.
Hópurinn vildi að bankinn myndi rifta verðbréfakaupunum. Á þetta féllst dómarinn ekki.
Nýjasta mynd Ferrels er teiknimyndin Megamind sem verið hefur að gera það gott í Bandaríkjunum og setið á toppi aðsóknarlistans tvær vikur í röð.