Mörg hjörtu voru kramin þegar Jon Favreau tilkynnti að hann myndi ekki gera þriðju Iron Man myndina. Þetta staðfesti hann meðal annars á Twitter síðu sinni, þar sem hann sagði, „Það er satt. Ég mun gera Magic Kingdom, ekki Iron Man 3.“
Í fyrstu var talið að ákvörðun hans stafaði af óánægju með þá upphæð sem Marvel bauð honum fyrir þriðju Iron Man myndina, en Favreau neitar því í viðtali við LA Times. „Ég vil frekar gera eitthvað sem kveikir virkilega í mér. Ég vil geta komið fólki á óvart og gert það orðlaust, sem er erfitt að gera með verkefni sem svo miklar væntingar eru fyrir.“
Ólíklegt er að ósætti ríki á milli Favreau og Marvel, þar sem Magic Kingdom er Disney mynd, en Marvel er í eigu Disney. „Ég hef átt góðar stundir með Marvel og óska þeim hins besta.“ sagði Favreau að lokum.
– T.V / B.D