Lion King kitlan sú vinsælasta frá uppafi

Ný kitla úr nýju Lion King kvikmyndinni, sem Walt Disney Pictures frumsýndi nú á fimmtudaginn síðasta , gerði sér lítið fyrir og setti áhorfsmet á netinu. Horft var á kitluna 224,6 milljón sinnum á fyrstu 24 klukkustundunum frá því hún var birt, og varð hún þar með vinsælasta Disney sýnishorn allra tíma. Aðeins ein stikla hefur fengið meira áhorf,  Avengers: Infinity War  með 238 milljón áhorf á fyrstu 24 klukkustundunum. Avengers er einnig úr herbúðum Disney, framleidd af Marvel Studios, dótturfyrirtæki Disney.

Leikstjóri Lion King, sem er endurgerð teiknimyndarinnar vinsælu frá árinu 1994,  er Jungle Book leikstjórinn Jon Favreau.

Talið er að Disney geri sér góðar vonir um velgengni myndarinnar þegar hún verður frumsýnd næsta sumar, en tekjur gömlu myndarinnar frá 1994 námu 968,8 milljónum bandaríkjadala. Að auki hafa verið framleiddir vinsælir söngleikir og teiknimyndaseríur upp úr kvikmyndinni.

Árið 2019 verður annars stórt ár hjá Disney, en auk Lion King er von á leiknum endurgerðum á bæði Aladdin og Dumbo.

Í The Lion King eru það ljónin sem öllu ráða á gresjunum í Afríku. Donald Glover ( Solo: A Star Wars Story ) leikur Simba, Beyoncé Knowles-Carter (Dreamgirls, ) leikur vinkonu og síðar kærustu Simba, Nala, og James Earl Jones (Rogue One: A Star Wars Story, Field of Dreams) leikur föður Simba, Mufasa, og endurtekur þar með leik sinn úr myndinni frá 1994.  Chiwetel Ejiofor (Twelve Years a Slave, Doctor Strange) leikur hinn undirförula þorpara Scar, og Alfre Woodard leikur móður Simba.